22.7.2006 23:59

Laugardagur, 22. 07. 06.

Tók þátt í fyrra degi Skálholtshátíðar og flutti þar ávarp. Þar skýrði ég frá samþykkt ríkisstjórnarinnar um að ganga til samstarfs við kirkjuna um að bæta aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum í Skálholti auk þess sem aðstaða til að nýta bókakost Skálholts yrði bætt en í dag var þar tekið formlega á móti veglegri bóka og nótnagjöf frá hjónunum Agnesi og Jaap Schröder.

Þá var kynnt merkilegt starf, sem er sprottið af sumartónleikunum í Skálholti og starfi Helgu Ingólfsdóttur semballeikara við að rannsaka íslenska tónlistararfinn. Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, kynnti séra Ólaf Jónsson frá Söndum og skáldskap hans og færði sterk rök fyrir áhrifum hans á Hallgrím Pétursson. Kammerkór Suðurlands söng og opnaði nýjar víddir um tónlistararfinn.

Í dag birtist grein eftir mig í greinaflokki Lesbókar Morgunblaðsins um kalda stríðið.