17.7.2006 20:25

Mánudagur, 17. 07. 06.

Var klukkan 12.00 í Þjóðmenningarhúsinu og tók þar þátt í athöfn vegna nýrrar bókar Sögu biskupsstólanna en sr. Gunnar Kristjánsson, formaður ritstjórnar, fylgdi ritinu úr hlaði.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, ritar grein í Morgunblaðið í dag, 17. júlí, þar sem hann ræðst harkalega að Margréti S. Björnsdóttur, ráðgjafa Ingibgargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrir grein Margrétar í Morgunblaðinu 15. júlí, sem ég reifaði í síðasta pistli mínum. Fyrirsögnin á grein Björgvís er þessi:

Ný hækja eða hólmganga við Sjálfstæðisflokkinn

Hún hefst á þessum orðum:

„Samfylkingin var stofnuð með sögulegt hlutverk að markmiði: Að sameina jafnaðarmenn í einum flokki og mynda raunverulegan valkost við Sjálfstæðisflokkinn. Binda þar með enda á langa valdatíð hægrimanna í íslenskum stjórnmálum og breyta samfélaginu í anda jafnaðarstefnunnar. “

Og þá segir:

„Það er þess vegna fráleit hugmynd sem nýverið kom fram í grein eftir Margréti Björnsdóttur á síðum Morgunblaðsins að það væri fýsileg hugmynd að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar komi til greina nú. Til hvers var þá sameinað? Var þá ekki alveg eins gott að starfa áfram í flokkunum fjórum og keppast um að komast í hlutverk hækju Sjálfstæðisflokksins eftir hverjar kosningar eins og var dapurlegt hlutskipti vinstriflokkanna á árum áður?

Í ljósi sögulegs hlutverks Samfylkingarinnar er samstarf við Sjálfstæðisflokk síðasti kostur flokksins. ....Samstarf við Sjálfstæðisflokk myndi marka endi á drauminum um nýja breiðfylkingu sem leysti Sjálfstæðisflokkinn af hólmi. Samfylkingin væri þá ekki að uppfylla sitt sögulega hlutverk. “

Ég hef áður velt því fyrir mér hér á síðunni, hvers sá málstaður á gjalda, sem Björgvin tekur til umræðu - þetta sannast enn í þeirri óvild, sem birtist hjá honum í garð Sjálfstæðisflokksins. Hitt er síðan annað mál að velta fyrir sér hroka hans í garð Margrétar. Þess er rétt að geta, að Björgvin er í innsta hring Össurar Skarphéðinssonar og hefði hvorki skrifað né óskað birtingar á þessari grein án vitneskju leiðtoga síns innan Samfylkingarinnar - en miðað við klofninginn innan hennar er spurning, hvort nokkur flokkur hefur áhuga á að starfa með henni, hvort sem hann er til hægri eða vinstri.