13.7.2006 23:27

Fimmtudagur, 13. 07. 06.

Hitti fyrir hádegi fulltrúa frá Interpol, sem hafa verið hér til að kynna sér ákveðna þætti lögreglumála. Þeir lýstu ánægju með, hvernig staðið væri að alþjóðlegum samskiptum af hálfu alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, en bentu á það sama og aðrir sérfróðir menn um öryggismál, að við þyrftu að efla greiningarþáttinn í starfi lögreglunnar.

Var klukkan 20.00 í Fræðslumiðstöðinni á Þingvöllum, þar sem var hin hefðbundma fimmtudagsganga og leiddi ég hana með stuttu erindi í miðstöðinni um störf og stefnu Þingvallanefndar. Einnig ræddi ég um samstarfið við Gylfa heitinn Gíslason myndlistarmann, sem hefur skilað miklu fyrir þjóðgarðinn ekki síst einstökum göngukortum og nú skiltum við  á nokkrum völdum stöðum við inngöngu í þinghelgina og innan hennar. Voru börn Gylfa með í hópnum og tóku þátt í að afhjúpa þessi skilti, sem eiga eftir að verða mörgum til fóðleiks.

Undir lok göngunnar tók Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur og forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands, við leiðsögninni og sagði frá fornleifagreftri við Þingvallabæinn.

Fjöldi manna var í göngunni, þrátt fyrir rigningaveður, eins og sjá má af myndum, sem ég hef sett inn á myndasíðuna undir opinberar myndir.