16.7.2006 16:48

Laugardagur, 15. 07. 06.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er fjallað um það, sem blaðið kallar hið nýja Ísland og þar segir: „Hið nýja Ísland þéttbýlisins er að snúa heim og leita uppruna síns og rótanna. Kynslóðir þéttbýlisins leita sveitanna og náttúrunnar.“ Síðar segir svo: „Þegar Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, keyrir um á dráttarvél í Fljótshlíðinni eykst skilningur hans á stöðu og högum bænda.“

Ég ætla ekki að deila við Staksteinahöfundinn um skoðun hans á þessu. Frá mínum bæjardyrum séð skiptir þó meiru að fá tækifæri til að kynnast fólkinu í Fljótshlíðinni en að aka um á traktornum -aksturinn minnir mig aðeins á sveitadvölina norður á Reynistað í Skagafirði, þegar ég var ungur og sendur þangað í sveit. Ég man ekki, hvað ég var orðinn gamall, þegar ég fékk að aka dráttarvél þar, en sú, sem ég ek í Fljótshlíðinni er frá því snemma á sjöunda áratugnum og því heldur háþróaðri en sú, sem ég ók fyrir norðan.