6.7.2006 21:37

Fimmtudagur, 06. 07. 06.

Þegar við héldum að austan var sólin farin að skína eftir rigningarsuddann.

Mér var bent á, að í Víðsjá á rás 1 hefði föstudaginn 30. júní verið fluttur pistill undir heitinu: Litli Björn og öryggi skógarins. Þar sem ég hafði misst af honum fór ég og inn á netið og hlustaði. Því miður kom ekki fram þar, hver það var sem samdi og flutti þennan pistil en kveikjan að honum var matsskýrsla sérfræðinga Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum um Ísland og tillögur þeirra um nauðsynlegar ráðstafanir hér á landi.

Enn sannaðist í þessum pistli, hve heitar tilfinningar og jafnvel skáldlegar geta kviknað, þegar rætt er um öryggismál þjóðarinnar. Miðað við þær skoðanir, sem þarna voru reifaðar, hæfði vel hjá höfundinum að færa þetta í barnalegan búning. Kenningin virtist vera sú, að dýrin í skóginum þyrftu ekkert að óttast, af því að þau vissu ekki, hver ógnaði þeim.