7.7.2006 22:32

Föstudagur, 07. 07. 06.

Var síðdegis í skrifstofu Þjóðskrár við Borgartún, þar sem efnt var til fundar með starfsfólki í tilefni af því, að hinn 1. júlí gengu í gildi lög um flutning Þjóðskrár í dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Fyrst um sinn verður Þjóðskrá ein af skrifstofum ráðuneytisins en markmiðið er, að hún verði síðar sjálfstæð stofnun á vegum ráðuneytisins.

Hinn 7. júlí 1941 sigldu bandarísk herskip til Reykjavíkur með fyrstu bandarísku hermennina, sem komu til evrópsks lands til þátttöku í heimsstyrjöldinni.

Hinn 7. júlí 1983 ritaði Ólafur Ragnar Grímsson grein í Þjóðviljann  í tilefni af komu George Bush, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands fyrr í þeirri sömu viku. Greinin hófst á þessum orðum „Nú er hann farinn, CIA-forstjóirinn sem fluttist í stól varaforseta. Hann gekk um með lýðræði á vörum, frelsi á tungu og bros á sjónvarpsskermi. En á fundum með íslenskum stjórnarherrum hafði hann aukinn hernað í hendi sér, kröfur um efldan stríðsrekstur, bæði hér á landi og annars staðar í veröldinni.“ Ólafur Ragnar sagði einnig í þessari grein: „Gesturinn Bush var nefnilega um áraraðir æðsti prestur alls hins versta í stjórnmálum veraldarinnar. Hann stjórnaði frá degi til dags háþróaðasta kerfi njósna, spillingar, valdaráns og morðsveita sem fundið hefur verið upp í veröldinni.“

Hinn 7. júlí 2006 var efnt til viðræðufundar sendinefnda Bandaríkjanna og Íslands í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem rætt var um viðskilnað bandaríska varnarliðsins við brottför þess.

Hinn 7. júlí 2006 var sagt frá því, að í vikunni hefði George Bush verið að laxveiðum í Selá í Vopnafirði í boði Ólafs Ragnars Grímssonar. Á blaðamannafundi á Bessastöðum sagðist Bush hafa séð til þess, að dagurinn, sem hann fékk boðsbréfið frá Ólafi Ragnari, liði ekki, án þess að hann svaraði því játandi. Ólafur Ragnar gaf gesti sínum flugu og veiðistöng í tilefni komu hans til landsins.