31.7.2006 22:23

Mánudagur, 31. 07. 06.

Fréttir af barsmíðum og meiðingum í miðborg Reykjavíkur hafa dregið athygli að þeirri ákvörðun okkar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra að halda áfram samstarfi dómsmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar með þátttöku lögreglu, sem ég stofnaði til skömmu eftir að ég varð dómsmálaráðherra sumarið 2003. Vilhjálmur ritaði mér bréf skömmu, eftir að hann varð borgarstjóri og mæltist til þess, að ég tilefndi mann í starfshóp um öryggi bogarbúa og samstarf ráðuneytis og borgaryfirvalda og varð það niðurstaða okkar, að Stefán Eiríksson, nýskipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, skyldi leiða hópinn.

Mér finnst skrýtið, að látið er í það skína af Degi B. Eggertssyni, forystumanni Samfylkingarinnar í borgarstjórn, að þetta samstarf dómsmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar sé á einhvern hátt undan hans rifjum runnið. Þótt Dagur hafi verið og sé einn þeirra, sem sitja í starfshópnum, hefur hann ekki haft neitt frumkvæði að skipan hans.

Svo virðist sem sumir fjölmiðlar líti á Dag sem einskonar samnefnara fyrir þá þrjá flokka, sem eru í minnihluta í borgarstjórn. Hafa vinstri/græn og frjáslynd samþykkt Dag sem talsmanna sinn? Hvers vegna er ekki leitað álits allra minnihlutaflokkanna í borgarstjórn, þegar fjölmiðlar kynna deiluefni á þeim vettvangi?