20.11.1998 0:00

Föstudagur 20.11.1998

Veðurspáin var þannig að ég átti von á því að þurfa að aka til Reykjavíkur. Þennan morgun var hins vegar blankalogn á Ísafirði og flugvélin kom á réttum tíma og ég lenti í Reykjavík klukkan 11.45 samkvæmt áætlun. Áður en ég flaug af stað gafst mér tækifæri til að skoða nýjar kennslustofur grunnskólans á Ísafirði í gamla kaupfélagshúsinu, hefur þar verið fundin góð lausn á húsnæðisvanda skólans, sem olli miklum pólitískum deilum á síðasta kjörtímabili. Einnig fórum við í Framhaldsskóla Vestfjarða og skoðaði ég sérstaklega aðstöðuna til fjarkennslu, sem er að ryðja sér rúms á Ísafirði öllum til mikillar ánægju. Hitti ég meðal annars þær níu konur, sem þarna stunda nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Er ljóst, að þessi kennsluaðferð á eftir að valda byltingu. Um kvöldið átti ég þess kost að ræða við nokkra af þeim erlendu prófessorum, sem tóku fyrr um daginn þátt í ráðstefnu sjálvarútvegsráðuneytisins og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um kvótakerfið. Fer ekki á milli mála, að stjórn okkar á fiskveiðum þykir hafa skilað einstæðum árangri. Einn viðmælanda minna er sérfræðingur í hagfræðilegum þáttum umhverfismála og vorum við sammála um, að menn hefðu farið inn á rangar brautir í Kyoto. Taldi hann, að íslenska ríkisstjórnin hefði tekið mjög skynsamlega afstöðu með því að skrifa ekki undir skjalið frá Kyoto.