1.10.2007 19:07

Mánudagur, 01. 10. 07.

Alþingi var sett í dag og hófst athöfnin með því, að þingmenn gengu til kirkju. Þegar komið var að nýju í þinghúsið, var sú nýbreytni, að stengjakvartett sat í Kringlunni og lék íslenska tónlist, þegar gengið var í þingsal. Yfirbragð salarins var annað en áður, því að íslenski fáninn var á stöng aftan við forseta, honum á hægri hönd svo sem vera ber. Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi alþingismaður, barðist fyrir þessari nýbreytni með tillögum, á meðan hann sat á þingi.

Tónlistin við þingsetningu setti á hana hátíðlegan blæ. Eftir að þingmenn höfðu sest í sæti sín, lék kvartettinn af þingpalli. Að loknum ræðum forseta Íslands og forseta alþingis var þingmönnum og gestum boðið að þiggja veitingar í Skála þingsins og þar lék kvartettinn einnig en hann skipuðu: Auður Hafsteinsdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Pálína Árnadóttir og Svava Bernharðsdóttir.