25.10.2007 21:28

Fimmtudagur, 25. 10. 07.

Hæstiréttur felldi í dag merkan dóm í máli Ásatrúarfélagsins gegn íslenska ríkinu, þar sem félagið krafðist þess að sitja við sama borð og þjóðkirkjan við greiðslur úr ríkissjóði. Taldi félagið að skýra bæri 62. grein stjórnarskrárinnar um stöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í 65. gr. hennar - ólögmætt væri á grundvelli hennar að gera upp á milli trúfélaga um stuðning við þau. Hæstiréttur taldi, að verkefni Ásatrúarfélagsins og skyldur gagnvart samfélaginu yrðu ekki borin saman við lögboðin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar og þess vegna fælist ekki mismunun í því mati löggjafans að ákveða framlög til þjóðkirkjunnar umfram önnur trúfélög og þar væri ekki um neitt brot á jafnræðisreglu 65 gr. stjórnarskrárinnar að ræða. Staðfesti hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ríkisins.

Hér var raunverulega um það fjallað, hvort þjóðkirkjulögin frá 1997, sem hafa að geyma staðfestingu á samningi ríkis og kirkju um fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar stæðust stjórnarskrána.

Skömmu eftir að ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra komu álitaefni þessu tengd inn á mitt borð og var eftir því leitað, að ég beitti mér fyrir greiðslum úr ríkissjóði til þeirra trúfélaga, sem töldu á sig hallað með þjóðkirkjulögunum frá 1997. Ég taldi skynsamlegast að láta á þetta reyna fyrir dómstólum til að fá álit þeirra á því, hvort þessi lög stæðust stjórnarskrána, einkum jafnræðisreglu þeirra.

Niðurstaða hæstaréttar liggur nú fyrir og þjóðkirkjulögin standast stjórnarskrána að hans mati. Er mikils virði, að úr því hafi verið skorið á þennan afdráttarlausa hátt.