Fimmtudagur, 18. 10. 07.
Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hélt fund í dag með stjórnum hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins um stöðu mála í borgarstjórn. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðusflokksins, flutti ávarp við upphaf fundar en Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins, var fundarstjóri. Marta Guðjónsdóttir, formaður Varðar, sagði að fundi loknum, og tók undir með flokksformanninum, að nú væri þessi kapítuli að baki og við tæki glíman við framtíðina.
Geir H. Harde sat einnig fyrir svörum í Kastljósi í kvöld. Hann blés á allt tal um klofning í flokknum, það ætti ekki við nein rök að styðjast, enda sést hvergi neitt klofnings- eða armatal á prenti nema í Baugsmiðlinum DV.
Gunnar Smári Egilsson, blaðakóngur Baugs, gaf Baugsmiðlunum línuna í Fréttablaös-grein í vikunni. Hún snýst um að ráðast á sexmenningana í borgarstjórnarflokknum og láta eins og eitthvert ósamkomulag sé á milli Geirs H. Haarde og mín. Í dag hafa þeir Geir og Þórlindur Kjartansson, nýkjörinn formaður SUS, réttilega vísað þessu tali um tvær fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins á bug.
Geir segir, að Vilhjálmur Þ. verði sjálfur að taka afstöðu um eigin framtíð og hlutverk í borgarstjórn Reykjavíkur.
Félagar í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna hafa skýrt mál sitt fyrir stjórnum hverfafélaganna og öðrum trúnaðarmönnum í Reykjavík. Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna hafa gengið mun lengra en Björn Ingi Hrafnsson gerði í uppgjöri sínu, samt valdi Dagur B. Eggertsson að leita eftir samstarfi við Björn Inga, að því að hann hefði beðist afsökunar!