19.10.2007 21:37

Föstudagur, 19. 10. 07.

Flutti tvö mál á fundi ríkisstjórnar klukkan 09.30, um breytingu á hegningarlögum vegna Palermó-samningsins og vegna Evrópuráðssamninga um hryðjuverk og mansal og um að Íslendingar byðu til North Atlantic Coast Guard Forum árið 2009.

Var klukkan 11.30 í Alþingishúsinu og tók á móti Biblíu í nýrri þýðingu úr hendi biskups.

Klukkan 13.00 var ég í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, þar sem systir María Benedikta af Jesú Hostíu var jarðsett. Systir Benedikta kom hingað til lands 19. mars 1984 frá Póllandi, en þá hófst klaustrið í Hafnarfirði til nýrrar virðingar. Árið áður var á döfinni að selja húsið undir tónlistarskóla eða garðyrkjustöð, eftir að nunnur frá Hollandi höfðu yfirgefið staðinn.

Séra Jakob Rolland flutti minngarorð um systur Benediktu. Hann minnist þess, hve veðrið hefði verið vont, þegar Karmelsysturnar 13 komu 1984. Það hefði þó ekki aftrað þeim frá því að lúta til jarðar og kyssa sitt nýja land.

Alls tóku sjö prestar þátt í athöfninni. Kista Benediktu var í systrahluta kapellunnar og báru tveir starfsmenn útfararstofu hana út á stéttina fyrir framan klausturdyrnar. Tólf líkmenn, fjórar systur utan Karmelreglunnar, og átta karlmenn báru kistuna til grafar í austurenda klausturgarðsins. Fyrri hópur líkmanna bar kistuna frá stéttinni framan við klaustrið inn í klausturgarðinn. Ég var í þeim hópi líkmanna, sem bar kistuna innan klausturgarðsins. Þetta er dálítill spölur og á leiðinni lögðum við kistuna frá okkur til að skipta um hönd.

Veðrið var fallegt í garðinum, sólin skein og ógleymanlegt er, þegar systurnar vörpuðu hvítum rósum í gröfina og vökvuðu hana með vígðu vatni.

Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsi og flutti ávarp á stofnfundi félags ákærenda.

Klukkan 16.30 var ég á æfingasvæði sérsveitar lögreglunnar í Hvalfirði og tók þátt í 25 ára afmæli sveitarinnar.

Mér þótti kostulegt að sjá Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúa Framsóknarflokksins, í Kastljósi sem málsvara nýs meirihluta borgarstjórnar - manninn, sem Dagur & co hafa útmálað sem tákngerving framsóknarspillingar.

Ætlar Framsóknarflokkurinn að verða að fámennu vígi manna, sem virðast til þess búnir að fórna öllu fyrir eigin hagsmuni?