12.10.2007 19:01

Föstudagur, 12. 10. 07.

Hver skyldi vera boðskapur Svandísar Svavarsdóttur, eftir að hún hefur komist í meirihluta í borgarstjórn? Jú, nú skiptir mestu að „róa umræðuna“ um OR - það er hætta að tala um málið. Skyldi henni verða að ósk sinni? Gunnar Smári Egilsson, sem hefur reynslu af viðskiptalífinu, sagði í Íslandi í dag á Stöð 2 að kvöldi 11. október:

„Hins vegar held ég að þetta Orkuveitu og REI mál sé alls ekki búið og þar eigi eftir að koma ýmsir hlutir fram sem að bara eru ekki við hæfi og voru ekki við hæfi og ég held að þeir muni eiga eftir að reynast Birni Inga mjög erfiðir.“

Vill Svandís sópa þessum hlutum undir teppið með Birni Inga?

Gunnar Smári sagði einnig:

„Það sem ég held að hafi verið megin, sé meginatriðið í þessu máli er hvernig var staðið að að taka eignir út úr móðurfélaginu sem var Orkuveitan og flytja það yfir í dótturfyrirtæki þar sem að þeir sem voru að vinna að þessu höfðu kauprétt eða jafnvel eignarhluta í dótturfélaginu, þessu REI. Og þetta eru náttúrulega vinnubrögð sem að eru forkastanleg og núverandi meirihluti hlýtur að þurfa að fara í og gera eitthvað í. Það gengur ekki að, hvort sem hann heitir Bjarni Ármannsson eða þeir sem höfðu kauprétt þarna. Tökum til dæmis dæmi með þennan mögulega hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta eru mennirnir sem að ákváðu það að hann yrði ekki í Orkuveitunni heldur færu yfir í REI, þeir höfðu allir kauprétt í REI og höfðu þar af leiðandi hagsmuni þar. Bjarni Ármannsson sem var stjórnarformaður REI og er sjálfsagt guðfaðir þessarar sameiningar hann hafði eignarhluta í REI og var raunverulega trúnaðarmaður borgarinnar í REI. Hann var ráðinn af borginni til þess að gæta hagsmuni Reykvíkinga. Hann hafði eignarhlut í REI á meðan var verið að flytja eignir úr Orkuveitunni yfir í REI. Þetta er hneyksli.“

Hvers vegna vill Svandís „róa umræðuna“, þegar hún er kominn í aðstöðu til að upplýsa málið úr meirihluta?

Guðmundur Steingrímsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, tók upp hanskann fyrir Dag B. Eggertsson, verðandi borgarstjóra, á vefsíðu sinni 14. desember, eftir að Björn Ingi hafði deilt við þá Dag og Helga Seljan í Kastljósi. Pistill Guðmundar hófst á þessum orðum:

„Málflutningur Björns Inga Hrafnssonar í Kastljósi í gær var líklega sá óskammfeilnasti og ósvífnasti sem ég hef séð í sjónvarpi um langt árabil.“

Björn Ingi tók þarna upp hanskann fyrir Óskar Bergsson, varamann sinn í borgarstjórn, sem sakaður var um að þiggja bitlinga. Þeir Björn Ingi og Óskar voru klökkir á fundi Framsóknarflokksins í dag og föðmuðu Alfreð Þorsteinsson, guðföður hins nýja meirihluta, fyrir framan sjónvarpsvélarnar.