16.10.2007 20:30

Þriðjudagur, 16. 19. 07.

Fór klukkan 17.00 í Nýsköpunarmiðstöðina á Keldnaholti og hlustaði á dr. Mamdouh G. Salameh, sérfræðing í heimsmarkaði á olíu, flytja fyrirlestur um olíubúskap heimsins. Hann telur oliuframleiðslu hafa náð hámarki og hún eigi aðeins eftir að dragast saman, þess vegna muni olíuverð halda áfram að hækka.

Við Salameh hittumst á fundi í Washington fyrir nokkrum árum og var ánægjulegt að Bragi Árnason prófessor og Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, skyldu skipuleggja þennan fyrirlestur hans hér. Að honum loknum höfðu menn á orði, að svo svartsýna spá um olíubúskap heimsins hefðu þeir ekki áður heyrt.

Nýr meirihluti tók við völdum í borgarstjórn Reykjavíkur í dag, án þess að nokkuð sé í raun vitað um stefnu hans eða hvernig hann ætlar að taka á málefnum OR/REI/GGE. Meirihlutinn velur þann kost að setja menn utan borgarstjórnar í stjórn OR. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort stjórnarhættir OR opnist við það og meiri upplýsingum verði miðlað til borgarráðs og borgarstjórnar.

Umræðuhefðin, sem skapaðist um OR, á meðan Alfreð Þorsteinsson var stjórnarformaður var á þann veg, að hann montaði sig af ríkidæmi OR og af öllu, sem OR gerði, gagnrýni á verk stjórnar var svarað með skömmum um, að menn dirfðust að tala illa um starfsmenn OR, hvers ættu þeir að gjalda. Já, hvers áttu þeir að gjalda með 4 milljarða umframkeyrslu á kostnaði við höfuðstöðvar OR?

Mér heyrðist ágætur flokksbróðir minn og samþingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, rökstyðja aukið aðgengi að áfengi í verslunum á þann veg, að hér verði til einhver Miðjarðarhafsdrykkjumenning við breytingu í þá átt. Þessi rök voru notuð við breytingar á áfengislöggjöf í Bretlandi fyrir fáeinum árum. Allir virðast nú á einu máli um, að þar hafi drykkjumenning síður en svo færst í átt að Miðjarðarhafi. Drykkjuvandamál hafi stóraukist með auknu aðgengi og stórefla þurfi löggæslu og meðferðarúrræði til að bregðast við þeim.