5.10.2007 21:35

Föstudagur, 05. 10. 07.

Undarlegt er að sjá efasemdir um, að hugað sé að því, hvort einkaaðilar geti tekið að sér að reisa og reka nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Á sínum tíma beitti ég mér fyrir því, að einkaaðilar reistu og önnuðust rekstur Iðnskólans í Hafnarfirði. Um langt árabil hafði verið rætt um nauðsyn þess, að skólinn kæmist í betra húsnæði. Fjármálaráðuneytið féllst á tillögu menntamálaráðuneytisins um einkaframkvæmd og reis skólahúsið á skömmum tíma en Nýsir á húsið og tók að sér að reka skólann.

Engum datt á þeim tíma í hug, að Nýsir mundi ráða kennara eða bera ábyrgð á kennslu í skólanum. Þá var heldur ekki snúist gegn þessari einkaframkvæmd, af því að einhver kynni að græða á henni. Nú er látið eins og hugmynd um fangelsi í einkaframkvæmd leiði til þess, að einkaaðilar muni leggja sig fram um að fá sem flesta fanga til langs tíma - ósiðlegt sé að græða á fangavist annarra!

Í meira en 40 ár hefur verið rætt um að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Sýnir skorturinn á því mikla framtaksemi af hálfu ríkisvaldsins? Hvað tapast, þótt litið sé til þess að fela einkaaðila framkvæmd málsins?

Eftir allt, sem á undan er gengið og gagnrýni sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur á Alfreð Þorsteinsson vegna stjórnarhátta hans í Orkuveitu Reykjavíkur (OR), var það frekar dapurlegt tímanna tákn, að hann skyldi sitja í Kastljósi í kvöld og verja stjórnarhætti núverandi meirihluta í OR. Taldi hann sig meira að segja hafa verið tompaðan að því er varðar Línu-net!

Sagt er frá því í norska blaðinu Aftenposten í dag, að af Norðurlöndunum hafi Ísland flesta lögregluþjóna á íbúa, en fæstir séu þeir í Noregi.