8.10.2007 22:10

Mánudagur, 08. 10. 07.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kom sér saman um málefni Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í dag, þ. e. að skipta á Hauki Leóssyni, stjórnarformanni OR, og borgarfulltrúa í stjórn OR og selja hlut borgarinnar í Reykjavík Energy Invest (REI), það er útrásarfyrirtækinu, þar sem Bjarni Ármannsson var gerður að stjórnarformanni og situr með þeim Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, og Hauki í stjórn. REI var stofnað, á meðan Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi heilbrigðis- og tryggingarráðherra, var stjórnarformaður OR á síðasta vetri. Við myndun meirihlutans í borgarstjórn með Framsóknarflokknum var formennsku í stjórn OR á kjörtímabilinu skipt á milli þeirra þriggja Guðlaugs Þórs, Hauks og Björns Inga.

Björn Ingi sat fyrir svörum í Kastljósi kvöldsins og nefndi mitt nafn til að verja málstað sinn, af því að ég sat í nokkra mánuði árið 2002 fram á ár 2003 í stjórn OR og þar var meðal annars rætt um ENEX, sem er útrásarfyrirtæki til margra ára og átti að duga til að ná árangri á heimsmælikvarða en mátti sín greinilega ekki nægilega mikils og því kom REI til sögunnar. Ég biðst eindregið undan því, að nafn mitt sé nefnt í tengslum við þessar uppákomur hjá OR og REI síðustu daga. Ég hef gagnrýnt þá málsmeðferð alla og tel hana engum til sóma.

Um langt árabil hefur Íslendinga dreymt um að geta nýtt jarðhitaþekkingu sína á alþjóðavettvangi. Þróun orkuverðs undanfarin misseri gerir kleift að nýta orkugjafa, sem áður vöktu ekki sérstakan áhuga. Að verja eigi eignum Reykvíkinga til áhættufjárfestinga á Filippseyjum eða í Indónesíu á ekkert skylt við skoðanir mínar á útrás á þessu sviði - vilji einstaklingar eða fyrirtæki þeirra hætta fé sínu á þennan hátt hafa þeir fullt frelsi til þess.

Hitt skil ég ekki, að á sviði jarhitanýtingar á alþjóðavettvangi skipti sköpum fyrir Íslendinga, að aðeins eitt fyrirtæki sækist eftir verkefnum héðan.  Hvers vegna eru svona margar íslenskar fjármálastofnanir að sinna alþjóðlegum verkefnum? Af hverju taka þær ekki höndum saman í einu íslensku fjármálafyrirtæki á alþjóðavettvangi? Á sínum tíma sameinuðust fiskframleiðendur um sölusamtök til að styrkja stöðu sína á alþjóðamörkuðum - sá tími er liðinn við fisksölu. Nú er hins vegar talað um þessa aðferð sem sérstakt bjargráð við útflutning á jarðhitaþekkingu.