10.10.2007 21:50

Miðvikudagur, 10. 10. 07.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, stóð sig vel í Kastljósinu í kvöld, þegar hún ræddi OR/REI málið við þá Sigmar Guðmundsson og Dag B. Eggertsson, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Þorbjörg Helga fipaðist aldrei, af því að hún talaði af einlægni og sagði satt. Dagur B. var að reyna að slá keilur eins og jafnan áður.

Kjarninn í boðskap Dags B. er þessi: Við skulum ekki selja REI núna, síðar græðum við miklu meira en ef við seljum strax! Á þennan veg hefur verið talað um mörg fyrirtæki til að fá fólk til að festa fé í þeim - til dæmis deCode.  Hverjir töluðu verðmæti deCode í hæstu hæðir? Hvað græddu margir á þvi tali?

Á hverju á OR/REI að græða svona mikið? Jú, því að hætta fé Reykvíkinga á Filippseyjum eða í Indónesíu.

Spyrja má: Hvers virði eru orð Dags B., á meðan dómstólar hafa ekki komist að niðurstöðu um lögmæti allra furðugerninganna í tengslum við OR/REI? Eða svör við spurningum umboðsmanns alþingis hafa ekki verið kynnt og metin?

Ég ítreka: Ekkert af því, sem sagt hefur verið um tregðu Guðmundar Þóroddsonar til að miðla upplýsingum til kjörinna fulltrúa og jafnvel stjórnarmanna, kemur mér á óvart. Þar tala ég af eigin reynslu. Nærtækt er að rifja upp baráttuna fyrir því að fá að vita, hvað okruveituhúsið varð miklu dýrara en áætlað var - nýjasta talan, sem nefnd hefur verið, er 4 milljarðar króna umfram áætlun.