11.10.2007 19:03

Fimmtudagur, 11. 10. 07.

Klukkan 16.30 var efnt til blaðamannafundar við Iðnó með ráðhúsið í baksýn, þar sem kynntur var nýr fjögurra flokka meirihluti í Reykjavík með Dag B. Eggertsson í sæti borgarstjóra. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gekk úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna ágreinings um REI. Ágreiningurinn snýst um, hvort nota eigi gjöld viðskiptavina OR fyrir vatn og rafmagn til áhættufjárfestinga í útlöndum. Björn Ingi vill, að það sé gert en sjálfstæðismenn ekki.

Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri/grænna, hefur farið mikinn undanfarið í gagnrýni sinni á OR/REI. Í dag gekk hún hins vegar til samstarfs við þann borgarfulltrúa, Björn Inga, sem ákafast hefur varið allt, sem snertir OR/REI og síst allra séð nokkuð athugavert við það, sem þar hefur gerst.

Svandís og Björn Ingi eru pólitískir loddarar þessara uppskipta í borgarstjórn - einkennilegust er staða Margrétar Sverrisdóttur, sem er borgarfulltrúi fyrir flokk, sem hún klauf til að ganga í annan.

Það hefur enn sannast með atburðum síðasta sólarhrings, að ekki er flókið að halda fundi í borgarstjórnarflokki framsóknarmanna. Líklegt er, að hinn reynslumikli Alfreð Þorsteinsson hafi kippt í eina spottann til að tryggja, að örugglega verði ekki við neinu haggað hjá OR. Svandís handsalaði niðurstöðuna við Björn Inga.