6.10.2007 18:47

Laugardagur, 06. 10. 07.

Í morgun flutti ég ræðu í þeirri nefnd NATO-þingsins, sem fjallar um borgaralega hlið öryggis. Ræddi ég um breytinguna í íslenskum varnarmálum við brottför Bandaríkjahers héðan, við nýjar aðstæður á N-Atlantshafi vegna ferða risaolíu- og gasflutningaskipa frá Barentshafi til N-Ameríku og vegna ferða rússneskra spengjuvéla í nágrenni Íslands.

Í umræðum að erindinu loknu, kvaddi rússneskur þingmaður sér hljóðs og spurði, hvers vegna Ísland væri að efla landhelgisgæslu sína með nýrri flugvél, nýju varðskipi og nýjum þyrlum. Gegn hverjum við ætluðum að berjast? Við ættum að semja við Rússa um gæslu á hafsvæðinu í kringum landið, þeir sendu sprengjuvélar til að fylgjast með hryðjuverkamönnum og gætu komið í stað þyrlanna.

Ég taldi þetta af og frá. Íslendingar hefðu ekki her og væru ekki að búa sig undir stríð við neinn. Að spengjuvélar Rússa væru að leita að hryðjuverkamönnum umhverfis Ísland hljómaði ótrúlega og þessar vélar kæmu aldrei stað leitar- og björgunarþyrla við Ísland.

Þingmaður frá Bretlandi sagði Bandaríkjamenn hafa gert „monumental“ mistök með því að fara með herafla sinn frá Íslandi og hann mótmælti eindregið málflutningi rússneska þingmannsins um eðli flugs rússnesku sprengjuvélanna.