14.10.2007 18:45

Sunnudagur, 14. 10. 07.

Í pistli hér á síðunni í dag er fjallað um rás atburða vegna deilnanna um OR/REI/GGE.

Svandís Svavarsdóttir, staðgengill borgarstjóra í nýjum meirihluta, hefur ekki gefið Ragnari H. Hall, lögmanni sínum, fyrirmæli um að hætta við málaferli vegna hins umdeilda eigendafundar OR, sem hratt af stað byltingu í borgarstjórninni og leiddi Svandísi til valda með Framsóknarflokknum. Ragnar H. gaf annað til kynna í viðtali við Fréttablaðið eins og fram kemur í pistli mínum.

Þá var sagt frá því í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, sem situr í stjórn OR fyrir Sjálfstæðisflokkinn, vilji ógilda fyrri ákvarðanir um OR/REI/GGE, þar sem ekki hafi verið skýrt frá samningi til 20 ára, þar sem OR afsalar sér forræði á erlendum samskiptum.