28.10.2016 15:30

Föstudagur 28. 10. 16

Samtal mitt við Bjarna Benediktsson á ÍNN má nú nálgast hér á netinu.

Hér varð nokkur umræða í október 2014 þegar upplýst var að IS (Islamic State) – Ríki íslams eða Daesh, hryðjuverksamtökin sem nú eru á undanhaldi í Sýrlandi og Írak notuðu .is, íslenska lénið í netheimum, á áróðurssíður sínar. Ákvörðun var tekin um að loka á þessa notkun hryðjuverkamannanna.

Almenn samstaða var um lokunina. Einn þingmaður snerist þó gegn henni, Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata. Hann er ekki í framboði núna en sagði á á FB-síðu sinni 12. október að sér hefði þótt viðundandi að ISNIC hefði lokað á síðu IS með vísan til þess að Íslamska ríkið ætlaði að eigna sér lénið .is til þess hefði þó skort heimild og því hefði ekki átt að loka á síðuna af því að almenningur yrði „að hafa rétt og færi á því að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndirnar sem finnast í mannlegu samfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða hrylling á borð við Ríki Islams“.

Helgi Hrafn rökstudddi þessa undarlegu afstöðu meðal annars á þennan hátt:

„Allt tal um að þessari síðu verði að loka vegna þess að hún breiði út hatur er í grundvallaratriðum byggt á þeirri skelfilegu hugmynd að hluti verksviðs yfirvalda sé að hafa hemil á því hvað almenningur hugsi og hvað honum finnist.“

Í þýskum fjölmiðlum hefur oft komið fram að talið sé að allt að 90%  þeirra ungmenna sem IS tælir til liðs við sig í Evrópu geri það vegna hins lymskulega og snjalla áróðurs sem hryðjuverkasamtökin reka á netinu. Áhuga erlendra fjölmiðla, meðal annars þýskra, á Pírötum á Íslandi má rekja til leitar þeirra að stefnu Pírata. Ein spurningin er sú hvort þeir muni afnema bannið við að Ríki íslam noti lénið .is.

Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, hefur krafist að utanríkismálin falli í hlut flokks síns í stjórninni sem hún vill mynda að kosningum loknum undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Píratar vita að Ríki íslams hefur málað sig út í horn. Slík staða aðila í uppreisn gegn lögum og rétti höfðar sterkt til Birgittu og félaga eins og samúð þeirra með Edward Snowden, þjófi á bandarískum leyniskjölum, sýnir.

Allt bendir nú til að Sjálfstæðisflokkurinn myndi stærsta þingflokkinn að loknum kosningum. Þá liggur í hlutarins eðli að forseti veiti Bjarna Benediktssyni fyrst umboð til stjórnarmyndunar. Þetta hafa Birgitta og Smári McCarthy reynt að útliloka með viðræðum sínum um stjórnarmyndun fyrir kosningar. Þau vilja þrengja svigrúm forsetans.