27.10.2016 20:50

Fimmtudagur 27. 10. 16

Í dag efndi Varðberg til ráðstefnu í samvinnu við Nexus og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um ný viðhorf í öryggismálum Norðurlanda. Fjórir ræðumenn fluttu erindi frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Af þeim er augljóst að breytingin á sviði öryggismála er mikil, raunar hefur orðið kúvending, einkum í Danmörku og Svíþjóð. Finnar og Norðmenn sem eiga landamæri að Rússlandi hafa aukið árvekni sína og viðbúað en breytingin er ekki eins afgerandi og hjá Dönum og Svíum.

Allt þetta má rekja til ögrandi framgöngu Rússa sem brutu gegn öllum viðurkenndum reglum og alþjóðalögum með innlimun Krímskaga í Rússland. Eitt er að segja að þess sé ekki að vænta að Rússar láti Krímskaga af hendi, annað að sætta sig við yfirgang þeirra. Vissulega voru mörg ríki sem hættu að andmæla innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin, önnur héldu fast í andmæli sín. Þeim varð að ósk sinni um endurheimt sjálfstæðis ríkjanna. Hefðu allir sætt sig við yfirgang Moskvumanna og ráð þeirra yfir Eystrasaltsríkjunum hefði inntak sjálfstæðiskröfunnar einnig horfið.

Að telja yfirgang Rússa gagnvart Úkraínumönnum einangrað, einstakt mál er misskilningur eða skammsýni. Meira er í húfi. Finnski ræðumaðurinn í dag, Charly Salonius-Pasternak, sagði að innan Rússlands höguðu stjórnvöld sér þannig að almenningur gæti ímyndað sér að vera á fyrsta stigi styrjaldar. Þetta er róttæk yfirlýsing sem ekki má hafa að engu í umræðum um öryggismál hér eða annars staðar á Norðurlöndum.

Íslenskir stjórnmála- og fjölmiðlamenn láta sig þessi mál almennt lítið varða. Segi þeir álit sitt á öryggismálum samtímans mætti stundum ætla að það það sé frekar reist á eigin óskhyggju eða fordómum en staðreyndum.

Í dag sannaðist sem lá í augum uppi að vinstri flokkarnir undir forystu Pírata segðu eitthvað sem engu skipti efnislega eftir viðræðurnar að kröfu Birgittu Jónsdóttur um stjórnarmyndun fyrir kosningar. Í ljós kom að viðræðunum var og er ætlað að binda hendur Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, eftir kosningar, að hann geti ekki hundsað Pírata. Þeir hafi sannað að um fjögurra flokka blokk sé að ræða undir þeirra forystu og þess vegna beri þeim að fá umboð til stjórnarmyndunar.

Að fjölmiðlamenn átti sig ekki á þessari leikfléttu er í samræmi við annað þegar kemur að Pírötum. Sannast hefur að Smári McCarthy, leiðtogi evópskra pírata og frambjóðandi í Suðurkjördæmi, hefur villt á sér heimildir í fleiri en einu tilviki. Þá er augljóst að erlendir aflandskrónueigendur bíða með öndina í hálsinum eftir að Píratar fái undirtökin á alþingi.