6.10.2016 18:50

Fimmtudagur 06. 10. 16

Viðtal mitt við Ólaf Ragnar Grímsson um Arctic Circle – Hringborð norðurslóða er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag efndu Varðberg, Nexus og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands til fjölsóttrar ráðstefnu undir heitinu Brottför varnarliðsins – þróun varnarmála í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í tilefni af að 10 ár eru nú liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins.

Lilja D. Alfreðsdóttir flutti setningarræðu á ráðstefnunni og má lesa hana hér. 

Aðrir ræðumenn voru:

Robert G. Loftis, prófessor, aðalsamningamaður Bandaríkjastjórnar í varnarmálaviðræðum stjórnvalda Bandaríkjanna og Íslands 2005-2006.

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO.

Ojārs Ēriks Kalniņš, formaður utanríkismálanefndar lettneska þingsins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Á ráðstefnunni var skýrt frá aðdraganda þess að varnarliðið fór af landinu á annan hátt en áður hefur verið gert af hálfu Bandaríkjamanna. Robert G. Loftis lagði áherslu á að viðræður sínar hefðu ekki snúist um lokun Keflavíkurstöðvarinnar heldur skiptingu kostnaðar við rekstur hennar. Það hefði komið sér jafnmikið í opna skjöldu og Íslendingum að ákveðið var að loka stöðinni. Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráðherra, hefði tekið þessa ákvörðun og látið hana berast með snowflakes eins og fyrirmæli sem hann sendi frá sér voru nefnd, það er snjóflygsur. Annaðhvort voru þetta minnisblöð hans sjálfs eða áritanir hans á minnisblöð sem hann fékk til afgreiðslu með tillögum frá öðrum.

Taldi Loftis að þetta hefði verið óheppilegasta niðurstaða viðræðnanna enda hefði hún einkennst af skammsýni og skorti á sameiginlegu mati á efni málsins. Albert Jónsson sendiherra sem leiddi viðræðurnar af Íslands hálfu tók til máls á ráðstefnunni og minnti á að í raun hefðu þessar viðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarliðsins staðið frá árinu 1993. Að lokum hefði spruningin sem blasti við Íslendingum verið hvort þeir vildu greiða fyrir veru varnarliðsins sem hefði verið þeim mjög fjarlægt. Viðræður um það voru aldrei leiddar til lykta vegna einhliða ákvörðunar Rumsfelds.

Árið 2011 skrifaði ég grein í veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla sem ég nefndi þegar Rumsfeld lokaði Keflavíkurstöðinni. Hana má lesa hér. Var ánægjulegt að fá meginniðustöðuna staðfesta í erindi Loftis í dag. Ætlunin er að birta upptöku frá ráðstefnunni á vefsíðunni vardberg.is þegar frá henni hefur verið gengið.