17.10.2016 11:30

Sunnudagur 16. 10. 16

Í morgun setti ég spurningu inn á Facebook síðu mína í tilefni af umræðum um uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Ég spurði: Er eðlilegt að ríkisfyrirtæki sveipað leyndarhjúpi standi að öllum þessum framkvæmdum? Þarna vísa ég til Isavia ohf., ríkishlutafélags sem beitir öllum ráðum til að starfa með sem mestri leynd eins og málaferli Kaffitárs á hendur félaginu sýna.

Hér má sjá viðbrögðin við spurningunni. Einn svarenda er Pétur J. Eiríksson, fyrrverandi yfirmaður hjá Flugleiðum. Hann segir: „Verst er að engar framkvæmdir eru ákveðnar þótt þörfin æpi. Hægagangurinn hefur breytt KEF úr einum besta flugvelli Evrópu í einn þann versta.“

Tilefni spurningar minnar er frétt sem birtist á ruv.is laugardaginn 15. október og hefst á þessum orðum:

„Ekki hefur verið ákveðið hvort byrjað verður á fyrsta áfanga framtíðarstækkunar Keflavíkurflugvallar. Hönnun og framkvæmdir tækju fimm ár, og á meðan er útlit fyrir að flugfélögin þurfi að fjölga flugferðum utan háannatíma á daginn ef þau vilja auka umsvif verulega.

Ef fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll verður áfram hröð er útlit fyrir að ráðist verði í meiriháttar framkvæmdir þar. Isavia kynnti í fyrra þróunaráætlun, með metnaðarfullum hugmyndum um uppbyggingu til 2040. Þær eru þó ekki meitlaðar í stein. 

„Þróunaráætlunin sagði ekki endilega „svona munum við byggja“, heldur svona sjáum við framtíðina til 2030-2040,“ segir Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia.“

Allt er þetta sem sagt í véfréttarstíl og lýkur frásögninni á ruv.is á þessum orðum:

„En þurfa flugfélögin þá að breyta sínu leiðarkerfi og nýta dauða tímann ef þau vilja auka umsvifin verulega? „Kannski ekki breyta sínu leiðarkerfi í heild, en hugsa kannski ný tækifæri á öðrum tímum innan flugvallarins, ef þeir vilja gera það strax.““

Svarið við spurningunni sem ég setti á Facebook hlýtur að vera nei. Skýrslan sem skapað hefur umræður um Keflavíkurflugvöll nú er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Aton og eru höfundarnir allir fyrrverandi aðstoðarmenn ráðherra í stjórn Jóhönnu og Steingríms J. Í kynningu á sér á netinu segir Ingvar Sverrisson, forstjóri Aton: „Aton is a consulting company emphasising on Marketing and PR for companies in the Icelandic market. I have a strong experience in working with politicians and have therefore been able to help companies in representing their cases in order to have influence on decisions (Lobbyism).“