26.10.2016 15:00

Miðvikudagur 26. 10. 16

Í dag ræddi ég við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, efnahags- og fjármálaráðherra, í 52 mínútur í þætti mínum á ÍNN sem verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld.

The Financial Times segir þriðjudaginn 25. október að bandarískir fjárfestar sem eiga miklar aflandskrónueignir á Íslandi voni að ríkisstjórn sem tekur við eftir þingkosningarnar 29. október verði þeim hagstæðari.

Í blaðinu segir að fjórir bandarískir sjóðir eigi íslensk ríkisskuldabréf fyrir 1,5 milljarða Bandaríkjadala, sem nemur um 10% af vergri landsframleiðslu. Sjóðirnir, Autonamy Capital, Eaton Vance, Loomis Sayles og Discovery Capital Management, saka íslensk stjórnvöld um að haga sér eins og stjórnvöld í Argentínu með því að ætla að láta þá taka á sig fjárhagslegt tap.

Sjóðirnir hafa kvartað til EFTA fyrir utan að beita sér hér á landi til dæmis með heilsíðu auglýsingum í blöðum.

„Þegar fjaðrafokinu lýkur og nýtt fólk verður í ríkisstjórn, teljum við að þeir muni horfa öðruvísi á málin. Er þörf á þessum aðgerðum? Er nauðsynlegt að vera svona óbilgjarnir?“ segir Pétur Örn Sverrisson lögfræðingur sjóðanna tveggja. „Í mínum huga þá er glórulaust fyrir ríkisstjórnina að hafa þetta hangandi yfir sér.“

Merkilegt er að þessi frétt skuli skrifuð rúmum sólarhring eftir að vinstri flokkarnir hittust undir forystu Pírata til að ræða stjórnarmyndun að kosningum loknum. Forystumenn flokkanna vildu ekki upplýsa neitt um inntak viðræðna sinna. Að lögfræðingur tali um málefni umbjóðenda sinna á þann hátt sem þarna er gert án þess að hafa eitthvað fyrir sér er óhugsandi.

Á vefsíðu Viðskiptablaðsinsvb.is, er vitnað í Ásgeir Jónsson hagfræðing sem segir að núverandi ríkisstjórn hafi verið of drambláta gagnvart kröfuhöfunum og gengið of hart að þeim.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hafnar allri samlíkingu við Argentínumenn. Seðlabankinn taki málefni kröfuhafanna fyrir á næsta ári.

Þegar þessi frétt er lesin vakna minningar um hvernig ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. tók á málum kröfuhafa á fyrstu stjórnarmánuðum sínum eftir 1. febrúar 2009. Fyrrnefndur lögfræðingur kröfuhafanna þekkir þá sögu alla og veit að með Steingrím J. í valdastöðu verður mótuð friðþægingarstefna gagnvart kröfuhöfunum eins og við einkavæðingu bankanna í ráðherratíð hans eða gerð Icesave-samninganna.

Málflutningur lögfræðings kröfuhafanna einkennist af gamalkunnum hræðsluáróðri. Hann veit að sá áróður bítur þegar Steingrímur J. og co. eiga í hlut.