10.10.2016 19:15

Mánudagur 10. 10. 16

Allan daginn í gær ræddu menn í bandarískum sjónvarpsstöðvum og annars staðar hvernig kappræðurnar yrðu, einkum með vísan til þess að föstudaginn 7. október sagði Washington Post frá og birti áður óþekkta sjónvarpsupptöku þar sem heyra mátti Trump stæra sig af kvenhylli sinni samtímis því sem hann talaði niður til kvenna og lýsti ruddalegri, kynferðislegri framkomu sinni við þær.

Vegna birtingarinnar lýstu hundruð frammámanna repúblíkana yfir að þeir ætluðu ekki að kjósa Trump. Einn úr röðum þessara manna, Rudy Giulianifyrrv. borgarstjóri í New York tók þó að sér að verja Trump í sunnudags-spjallþáttum sjónvarpsstöðvanna. Hann boðaði meðal annars að Trump mundi minna Hillary á framgöngu eiginmanns hennar gagnvart konum og rifja upp hve illa hún sjálf hefði talað um þessar konur – henni færist með öðrum orðum ekki að gagnrýna sig.

Allt gekk þetta eftir og Trump bauð meira að segja nokkrum konum sem hafa harma að hefna gagnvart Bill Clinton að sitja meðal áhorfenda í St. Louis-háskólasalnum sem breytt var í sjónvarpssal. Upphaf kappræðnanna bar með sér hve mikil spenna ríkti milli frambjóðendanna. Trump gat varla hamið sig og þau skiptust á skammaryrðum. Í einni lýsingu á fyrstu 30 mínútunum segir að Trump hafi hagað sér eins og fimm ára barn og megi þakka fyrir að hann skyldi ekki lemja Hillary.

Kannanir sýna að áhorfendur telja Hillary hafa sigrað í kappræðunum sem einkenndust mest af tilraunum þeirra beggja til að draga upp sem versta mynd af andstæðingi sínum. Trump sagði Hillary lygara og hún ætti heima á bak við lás og slá. Hillary sagði Trump aldrei fara með rétt mál og hann hefði enn einu sinni sýnt að ekki mætti treysta honum fyrir forsetaembættinu.

Ótrúlegast við þetta allt er að bandaríska stjórnmála-, flokka- og fjölmiðlakerfið skuli ekki skila bandarísku þjóðinni betri frambjóðendum en þessum tveimur eftir allt sem gengur á við val á forseta voldugasta ríkis heims og því fremsta á sviði rannsókna, vísinda og menntunar.