13.10.2016 14:15

Fimmtudagur 13. 10. 16

Samtal mitt við Jón Torfason skjalavörð á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Við ræðum um bók hans Villikettirnir og vegferð VG. Jón sagði sig tvisvar úr VG á tíma stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar af því að honum blöskraði svo svik forystumanna VG við stefnu flokksins. Um þau er fjallað í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar segir meðal annars undir fyrirsögninni: Hverjum má treysta?

„Nú síðast eru Vinstri græn tekin að auglýsa myndarlega hér og hvar og snýst temað um það hverjum megi helst treysta.

Nú getur enginn með fulla rænu talið að spurning um hverjum megi helst treysta kalli nánast sjálfkrafa á svarið: Vinstri grænum!

Núverandi formaður nýtur þeirrar náðar að hafa þykkari stjórnmálalega teflonhúð en flestir aðrir. Með því að blása upp mynd af formanninum á auglýsingaborðum þá er því treyst að fortíð VG, undir forystu Steingríms J. Sigfússonar, gleymist nægjanlega lengi. En það eru margar hindranir á þeirri vegferð. Það er ekki bara það að Steingrímur er enn á staðnum. Og það er ekki aðeins það að hann sé enn talinn af þeim sem fylgjast með ráða ekki bara því sem hann vill í VG heldur almennt ráða þar öllu. Því það er ekki nóg. Því að jafnvel í því algleymi, sem íslensk stjórnmál hafa smám saman verið að turnast í, muna enn nægjanlega margir að Katrín Jakobsdóttir var eins og hinn síamstvíburinn í öllu svikaferli Steingríms Sigfússonar. Þótt af miklu væri að taka heyrðist aldrei múkk frá Katrínu á meðan hver þingbróðir hennar og systir af öðrum hrökkluðust úr þingflokknum og voru fyrir vikið hrakyrt sem villikettir. En eftir sat Katrín Jakobsdóttir malandi í kjöltu valdsins.

Þegar þau Steingrímur J. tóku heljarstökk afturábak í stærsta og helgasta máli VG, andstöðunni við aðild að ESB, var samhæfingin slík að engin slík hefur enn sést á ólympíuleikum í fimleikum. Þegar næst kom að dýrkeyptasta svikabrallinu, tilraun til að þvinga þjóðina til að kyngja Icesave-samningunum, sungu þau tvíraddað þannig að enginn vissi hvor söng hvaða rödd.“

Þarna er ekkert ofmælt og í bók sinni færir Jón Torfason fram heimildir sem styðja þennan dóm leiðarahöfundar Morgunblaðsins yfir forystumönnum VG. Það er vissulega furðulegt að barátta VG fyrir þessar kosningar skuli reist á áróðri um að flokknum sé unnt að treysta betur en öllum öðrum.