1.10.2016 10:45

Laugardagur 01. 10. 16

Þegar rætt er um heilbrigðismál, málefni aldraðra, samgöngumál, menntamál, húsnæðismál og löggæslumál nú fyrir kosningar er hvergi slegið af í kröfum og litið á stöðuna eins og hún er nú á líðandi stundu, fortíðin sé gefin stærð og framtíðin óráðin. Hér og nú eigi það að fást sem um er beðið. Stjórnmálamenn eigi að lofa og standa kjósendum skil gerða sinna.

Á meðan ekki næst sátt um hvert skuli stefnt og hvernig fjármagna skuli leiðina að markmiðinu ríkir þetta uppnám sem einkennir umræðurnar. Sáttin næst ekki á meðan allir telja sig aðeins ná til háttvirtra kjósenda með yfirboðum.  Oftast eru yfirboðin ekki annað en lýðskrum því að ekki er unnt að framkvæma þau þegar á reynir.

Í skjóli þess að hér hrundi bankakerfi var gerð misheppnuð og kostnaðarsöm tilraun til að setja íslenskt þjóðfélag algjörlega úr skorðum á árunum 2009 til 2013.

Þetta hófst strax eftir að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon komust til valda með stuðningi Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009. Mest lá þeim á að reka yfirstjórn seðlabankans og ráða Norðmann til að stýra bankanum þar til Már Guðmundsson var skipaður í embættið.

Síðan var ráðist gegn stjórnarskránni, unnið að inngöngu Íslands í ESB, gripið til aðgerða til að friðþægja kröfuhöfum og ráðist í breytingar á skattalögum í anda sósíalista. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var veitt sjálfdæmi og fjármálaráðherra Steingrímur J. gekkst upp í að njóta þar sérstaks trúnaðar. Vegið var að grunnkerfum samfélagsins og beðið eftir að Evrópusambandið leysti þjóðina úr fjármagnshöftum.

Um leið og enn á ný sannaðist að sjávarútvegurinn væri hornsteinn efnahags þjóðarinnar var vélað um leiðir til að eyðileggja stjórnkerfið sem skapað hefur mestan arð í atvinnugreininni. Eitt af markmiðum ESB-aðildarsinna var að ganga að íslenskum landbúnaði dauðum.

Þessir atburðir standa okkur svo nærri að undrun sætir verði þeir ekki kjósendum víti til varnaðar í komandi kosningum og minni þá á að í atkvæðisréttinum felst vald til að marka braut til framtíðar, að velja á milli feigs og ófeigs. Óheillaþræðirnir sem mynduðu kjarnann í stefnu Jóhönnu og Steingríms J. eru enn í höndum ýmissa sem bjóða sig fram í flokkakraðakinu sem er í boði 29. október. Stundarhagsmunir eru vissulega mikils virði mestu skiptir þó að stíga ekki skref sem gera illt verra.