Mánudagur 17. 10. 16
Hefði Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, ekki spilað út hugmyndinni um stjórnarsáttmála fyrir kosningar hefði hún reynst með öllu marklaus. Innan flokks hennar var ákveðið að þríeyki fengi umboð til stjórnarmyndunar fyrir kosningar eftir að beitt hafði verið brögðum til að þeir sem telja sig eiga Pírataflokkinn höfðu náð undirtökunum í öllum kjördæmum hans með óskiljanlegum prófkjörsaðferðum.
Tveimur vikum fyrir kjördag, sunnudaginn 16. október boðaði þríeykið síðan blaðamannafund þar sem Birgitta flutti boðskapinn um stjórnarsáttmálann. Píratar hefðu sent fjórum flokkum bréf um mögulegar stjórnarviðræður eftir kosningar. Flokkarnir væru Björt framtíð, Samfylkingin, Vinstri græn og Viðreisn. Píratar ætluðu síðan að skila skýrslu um viðræður við flokkana til kjósenda fimmtudaginn 27. október, tveimur dögum fyrir kosningar.
Á mbl.is er mánudaginn 17. október rætt við Baldur Þórhallsson, deildarforseta stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands, sem segir meðal annars:
„Ég held að þetta útspil sé nokkuð snjallt hjá Pírötum. Þrátt fyrir að þessi tilraun sé dæmd til að mistakast, vegna þess að það er mjög óraunhæft að það náist að gera stjórnarsáttmála á þeim skamma tíma sem er til kosninga, þá staðfestir hún að Píratar eru rótækt umbótaafl sem er staðráðið í því að breyta íslenskum kosningahefðum. Mig grunar að það séu skilaboðin sem Píratar eru að senda með þessu.“
Prófessorinn lítur sem sé á þetta sem snjalla stjórnmálafæðilega tilraun sem sé dæmd til að mistakast. Þetta er með öðrum orðum liður í pólitísku sjónarspili sem sett er á svið til að gefa til kynna að forystusveit Pírata ætli að „vera leiðandi í næstu ríkisstjórn“, hún ætli ekki að „verða þriðja, fjórða eða jafnvel fimmta hjólið undir vagninum,“ segir Baldur og einnig: „Þeir ætla að vera aðal og eru komnir til að breyta. Það verður þeirra krafa í stjórnarmyndunarviðræðum.“
Sé þessi kenning prófessorsins rétt má draga þá ályktun að stjórnmálaforingjar sem taka jákvætt í hugmynd Birgittu játist undir forystu hennar að kosningum loknum þótt tilraunin mistakist fyrir kosningar. Oddný Harðardóttir, Samfylkingu, og Katrín Jakobsdóttir, VG, hafa þegar stigið þetta skref. Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, og Benedikt Jóhannesson, Viðreisn, hika en afneita ekki Birgittu.
Spurningin sem vaknar er: Hvers vegna að kjósa millilið eða varadekk? Af hverju ekki að kjósa Birgittu milliliðalaust?