21.10.2016 17:45

Föstudagur 21. 10. 16

Píratar mælast stærsti stjórnmálaflokkurinn í könnun Félagsvísindastofnunar sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Nokkur athygli hefur beinst að flokknum í þessari viku en sunnudaginn 16. október töldu fjölmiðlar og stjórnmálafræðingar að forysta flokksins hefði boðað til stjórnarmyndunarviðræðna í því skyni að útiloka Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

Þrír einstaklingar leiða þessar viðræður af hálfu Pírata og er augljóst að Smári McCarthy lítur á sig sem forsætisráðherraefni flokksins þótt látið sé í veðri vaka að flokkurinn sækist ekki eftir embættinu. Smári leiðir listann í suðurkjördæmi og hefur verið leiðtogi Evrópusamtaka Pírata sem eru á fallanda fæti megi marka vefsíðu þeirra. Hann blandaði sér í Brexit-kosningarnar á Bretlandi og barðist fyrir aðild Breta að ESB undir slagorðinu: „Ekki vera heimsk þjóð – kjósið að vera í sambandinu“. Hér á landi slær hann úr og í þegar hann er spurður um afstöðu til ESB.

Þótt Píratar ræði mikið um opið stjórnkerfi stjórnar lítil klíka flokki þeirra án gagnsæis og án þess að kalla á almenna þátttöku stuðningsmanna flokksins við töku ákvarðana. Hafa tök klíkunnar verið hert undanfarnar vikur eins og fram kom í prófkjörum, einkum í norðvesturkjördæmi.

Lykilaðili í lokuðu valdakerfi Pírata er Olga Margrét Cilia sem fer með forystuhlutverk í kosningastarfinu núna eftir sviptingar á bak við tjöldin, brottrekstur kosningastjóra og fleira. Valið var í kosningastjórnina á bak við tjöldin. Grasrótin kom ekki að ákvörðunum um hana, fyrir utan að flokksklíkan hefur blásið af opið ráðningarferli til að treysta völd sín.

Einkennilegt er að fjölmiðlar beini ekki meiri athygli að innviðum Pírata og kynni rækilega til sögunnar fólkið sem þar á hlut að máli. Ekki er síður sérkennilegt að enginn úr hópi stjórnmálafræðinga skuli taka sér fyrir hendur að skilgreina hvort líta megi á Pírata sem lýðræðislegt afl í ljósi skipulags þeirra sjálfra og framkvæmdar á því.

Fari svo fram sem horfir fær klíkan sem ræður flokki Pírata ekki aðeins mikil völd í þjóðfélaginu í krafti þess fylgis sem henni er spáð heldur einnig margar milljónir af skattfé almennings. Það er beinlínis nauðsynlegt til að sporna við spillingu að valda-afkimar Pírata séu skoðaðir og skráð hvernig þræðir valdsins í röðum þeirra liggja.