20.10.2016 11:30

Fimmtudagur 20. 10. 16

Vegna þess hve augljóst var að Kastljósi gærkvöldsins var beint gegn Sjálfstæðisflokknum aðeins 10 dögum fyrir kosningar setti ég þennan texta inn á síðu mína á Facbook

„Kastljós safnaði í kosningasarpinn í von um að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og gerði tilraun til þess 10 dögum fyrir kosningar með því að birta átta ára gamla frétt um lánið fræga til Kaupþings. Það var veitt með öruggu veði í von um að einn banki lifði. Sagan um hvernig fór fyrir veðinu er athyglisverðari en ákvörðunin um lánið en það passar Kastljósmönnum ekki að segja þá sögu frekar en þeir vilja ekki segja söguna um leynilega einkavæðingu Steingríms J. á bönkunum til kröfuhafanna.“

Viðbrögðin voru mikil og þeim er ekki lokið. Jafnt þeir sem hrósa Kastljósmönnum og hinir sem gagnrýna þá eru sammála um að hér hafi verið um flokkspólitíska aðgerð gegn Sjálfstæðisflokknum að ræða.

Frásögnin og sérstaklega umgjörð hennar var tilefnislaus þegar litið er á efni málsins.

Í fyrsta lagi var upplýst fyrir löngu að Geir H. Haarde forsætisráðherra og Davíð Oddsson seðlabankastjóri ræddu saman í síma um hvort veita ætti Kaupþingi neyðarlán með veði í dönskum banka í von um að bjarga mætti einum íslenskum banka í hruninu. Vonin brást.

Í öðru lagi vaf vitað að Geir H. Haarde vissi ekki að símtal hans og Davíðs var hljóðritað. Hann hefur þess vegna neitað birtingu þess í krafti réttar síns í því efni. 

Í þriðja lagi var sagt frá því að starfsmaður seðlabankans hefði brotið trúnað með því að ræða við konu sína, lögfræðing hjá samtökum fjármálafyrirtækja, vinnu við gerð neyðarlaganna.

Allir þættir þessara mála hafa sætt rannsókn nefndar á vegum alþingis, sérstaks saksóknara og fyrir Landsdómi. Að málið var tekið upp í Kastljósi núna má auðveldlega flokka undir einhliða áróður á örlagastund fyrir kosningar. Dómgreindarleysi eða bíræfni þeirra sem standa að þessari beitingu opinbers fjölmiðlavalds er augljós. 

Í frásögninni var stuðst við gögn eftir skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara frá árinu 2012 yfir starfsmanni seðlabankans. Einhver hefur lekið þessu trúnaðarskjali og framið með því lögbrot. Þegar heimasömdu minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos var lekið úr innanríkisráðuneytinu fór allt á annan endann. Verður jafnræðisregla brotin með aðgerðarleysi opinberra yfirvalda vegna lekans nú?