12.10.2016 18:45

Miðvikudagur 12. 10. 16

Í kvöld kl. 20.00 verður frumsýnt viðtal mitt á ÍNN við Jón Torfason skjalavörð um nýja bók hans, Villikettirnir og vegferð VGfrá væntingum til vonbrigða. Þegar bókin er lesin og lýsing Jóns á svikum forystumanna VG við stefnu flokksins í ESB-málinu og fleiri málum til að viðhalda stjórnarsamstarfinu undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur er með ólíkindum að VG haldi velli í skoðanakönnunum en Samfylkingin verði að engu.

Samfylkingarfólkið var þó sjálfu sér samkvæmt þegar ESB-æðið rann á það með hörmulegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Samfylkingin hefði þó aldrei getað skrifað þennan svartasta kafla í utanríkismálasögu lýðveldisins án hlutdeildar VG-manna. Ábyrgð Steingríms J. er því mikið. Hann ýtti meðal annars Jóni Bjarnasyni úr ráðherraembætti til að verða við óskum ESB og Samfylkingarinnar.

Raunar hafði Jóni verið hótað brottrekstri í ríkisstjórninni áður en það gerðist endanlegas 31. desember 2011. Í bók Jóns Torfasonar segir Jón Bjarnason frá því hvernig flokksforysta VG lagðist á hann sumarið 2009 þegar gengið var til atkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsóknina. Fyrst var lögð fram tillaga frá sjálfstæðismönnum um að leggja það í dóm þjóðarinnar að ákveða hvort umsóknin skyldi send til ESB. Jón Bjarnason segir í bókinni (bls. 85):

„Á þingflokksfundi VG um málið var stemmingin þrungin og þegar ég sagðist myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu féll sú ákvörðun vægast sagt í mjög grýttan jarðveg. Var mér þá einfaldlega hótað brottrekstri úr ríkisstjórn af formönnum beggja stjórnarflokkanna. Eða eins og formaður VG [Steingrímur J.] orðaði það, þá var mér ætlað að ganga á fund forsætisráðherra.

Ögmundur Jónasson, sem lagði mikið í sölurnar fyrir myndun fyrrverandi ríkisstjórnar, stóð þá upp og tilkynnti að ef Jón Bjarnason ætti að ganga með höfuð sitt á fati til forsætisráðherra þá myndi heilbrigðisráðherra [Ögmundur sjálfur] ganga sömu leið.“

Þetta gerðist um miðjan júlí 2009 þegar ríkisstjórnin var aðeins tveggja mánaða. Af bók Össurar Skarphéðinssonar Ári drekans sem segir frá ráðherrastörfum hans árið 2012 má ráða að hann og Ögmundur hafi í raun haft líf ríkisstjórnar Jóhönnu í hendi sér. Spyrja má í tilefni af tilvitnuðu orðunum hér að framan: Hvað lagði Ögmundur í „sölurnar fyrir myndun“ ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.?

Jón Torfason ritar bók sína vegna ósannsögli Steingríms J. Sigfússonar í sjálfs-upphafningarbók hans um eigin ráðherrastörf. Skyldi Ögmundur Jónasson, hættur þingmennsku, nú segja sína hlið á málum?