Föstudagur 07. 10. 16
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, flutti ræðu á ráðstefnunni Arctic Circle í morgun og síðan stjórnaði Ólafur Ragnar Grímsson viðræðum Sturgeon við fundarmenn í sal. Sturgeon er greinilega mjög öflugur stjórnmálamaður og flytur mál sitt af festu og þrótti. Kona sem spurði úr sal sagði Sturgeon auk þess gáfaðasta stjórnmálamann sem hún hefði kynnst. Eitt af því sem Sturgeon sagði og vakti kátínu fundarmanna var að það væri styttra frá nyrsta odda Skotlands inn á norðurskautssvæðið en til London.
Forvitnilegt er að hlýða á ræðumenn á Arctic Circle í Hörpu en ekki síður að fylgjast með hvernig húsið virkar sem samkomustaður svo mikils fjölda ráðstefnugesta. Ég tek undir með Ólafi Ragnari í viðtali við mig á ÍNN að Harpa sé frábært ráðstefnuhús. Þá er lega hennar einstök að því leyti að hótel eru flest í norðurhluta borgarinnar frá Suðurlandsbraut vestur á Mýrargötu og auðvelt er að finna leið að húsinu hvar sem maður er á þessu svæði.
Á dögunum lenti Össur Skarphéðinsson í einhverjum hremmingum þegar hann vildi setja Samfylkinguna og Pírata undir sama hatt, líklega í von um að kjósendur mundu frekar flykkjast um sig en Pírata þegar þeir áttuðu sig á þessu. Eva H. Baldursdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem skipar 2. sætið á framboðslista flokksins í Reykjavík suður segir í dag á Facebook:
„Píratar birtu í dag stefnuskrá sína. Og ég get svo svarið það krakkar að þetta er stefnuskrá XS klippt og límd í grófum dráttum (hvet einhvern til að taka excel æfingu) að undanskildu því meginatriði að EKKERT er rætt um jafnréttismál, kynbundin launamun og stöðu barnafjölskyldna.
Pólitík snýst um hugsjón og málefni og því fagna ég þessu, en er auðvitað súr yfir því að jafnaðarmannaflokkurinn - með greini, sé ekki að mælast betur. Hugmyndirnar lifa sem er hins vegar vel.“
Mælingin sem Eva H. nefnir birtist í Morgunblaðinu í dag. Blaðið túlkar niðurstöðu könnunarinnar á þann veg að Össur fyrsti maður á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður nái ekki kjöri hvað þá Eva H. Leið hennar í leit að meira fylgja er hins vegar sú að samsama sig og flokk sinn Pírötum. Skyldi fylgi Samfylkingar aukast við þetta? Eða velja kjósendur eftirlíkinguna?