4.10.2016 15:30

Þriðjudagur 04. 10. 16

Í Morgunblaðinu í dag segir að neyðarskýli fyrir hælisleitendur verði opnað í dag á Krókhálsi í Reykjavík þar sem Lögregluskólinn var áður. Um 40-60 hælisleitendur muni dveljast þar en um sé að ræða bráðabirgðaúrræði. Í frétt á ruv.is segir vegna þessa:

„Aldrei hafa jafn margir sótt um hæli hérlendis líkt og gerðu í ágúst og september síðastliðnum. Húsnæðið sem Útlendingastofnun hefur til umráða fyrir hælisleitendur var fullnýtt um miðjan september og grípa hefur þurft til þess ráðs að koma hælisleitendum fyrir á hótelum og gistiheimilum.“

Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri neyðarvarnasrviðs Rauða krossins, segir Rauða krossinn hafa verið viðbúinn auknum fjölda hælisleitenda hér á landi á þessu ári en ekki hafi verið búist við að svo margir kæmu í einu, líkt og hefur verið á síðustu vikum.

Allt ber hér að sama brunni og áður. Á sama tíma og nágrannaþjóðir fagna fækkun hælisleitenda fjölgar þeim hér. Fjölgunin á einkum rætur að rekja til komu fólks frá Albaníu og Makedóníu sem á engan lagalegan rétt til að fá hér hæli en er í nokkrar vikur, mánuði og jafnvel ár á opinberu framfæri hér á meðan mál þess velkist í kerfinu – nú dragast mál á langinn hjá opinberri kærunefnd og þeim sem framkvæma brottflutning fólksins eftir úrskurð um brottvísun.

Það er í sjálfu sér frekar nöturlegt að gamalt húsnæði Lögregluskólans skuli notað sem neyðarrými til bráðabirgða fyrir hælisleitendur. Virðist þeirri ráðstöfun tekið sem næsta sjálfsögðum hlut í fréttum í stað þess að leita skýringa á hvers vegna svona er komið í þessum málaflokki þegar unnt er að beita mun öflugri úrræðum en gert er til að draga úr fjölda þeirra sem hingað koma.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur lýst áhyggjum af ástandinu. Hún glímir hins vegar við sama vanda og ýmsir forverar hennar á stóli dómsmálaráðherra sem sætt hafa gagnrýni þingmanna vilji þeir efla varnir á þessu sviði sem öðrum.

Sé því hreyft að huga þurfi að hervörnum Íslands eða vopnum fyrir lögreglumenn reka þeir gjarnan upp ramakveim sem mega ekki heyra minnst á að allt sé gert sem lög leyfa til að stemma stigu víð ólöglegri komu fólks hingað. Hér er áhrifamikill hópur sem vill engar ráðstafanir til að verja eða vernda land og þjóð, allt á að standa opið.