Miðvikudagur 19. 10. 16
Í dag ræddi ég við Bryndísi Haraldsdóttur, formann bæjarráðs Mosfellsbæjar og frambjóðanda í 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld.
Össur Skarphéðinsson var fulltrúi Samfylkingarinnar í sjónvarpsumræðum fulltrúa stjórnmálaflokkanna um Ísland og umheiminn þriðjudaginn 18. október. Össur hætti ESB-viðræðunum í janúar 2013 af því að ekkert hafði miðað við afgreiðslu sjávarútvegskafla þeirra frá því í mars 2011. Það hafði meira að segja engin áhrif á ESB að Jón Bjarnason (VG) var rekinn úr ríkisstjórninni 31. desember 2011og sjálfur Steingrímur J. Sigfússon tók við af honum og brá sér til Brussel í ársbyrjun 2012. Nú vill Össur hefja viðræðurnar að nýju meðal annars með þessum rökum sem hann kynnti í sjónvarpsumræðunum. Össur sagði:
„Þá [snemma árs 2013] lá það fyrir nokkuð vel að við vorum að ná landi í nokkrum mikilvægum málaflokkum. Ég nefni sérstaklega þá sem voru erfiðastir það er í landbúnaði og sjávarútvegi.
Það var mjög merkilegt að sjá það undir lok kjörtímabilsins síðasta þegar staðgengill sendiherra ESB lýsti afstöðu ESB á opnum fundi og refererað var í fjölmiðlum og sagði það einfaldlega að Íslendingar hefðu meitlað það svo fast sín rök til dæmis í sjávarútvegsmálum að það væri augljóslega niðurstaðan að Íslendingar fengju hér sérstakt fiskveiði stjórnsvæði og það væri augljóslega niðurstaðan að ESB eða Brussel mundi ekki hafa áhrif á úthlutun aflaheimilda. Áður hafði þó komið skýrt fram að ESB hafði engan grundvöll til að fá hér einn sporð í aflaheimildir. Þetta skiptir máli að nota þetta færi á meðan það liggur svona. [...]
Ég tel að Brexit ef af því verður það auki líkurnar á því að okkur takist að ná enn betri samningi en menn hefðu getað vænst áður.“
Þetta eru raun furðuleg ummæli mannsins sem hóf og lauk ESB-aðildarviðræðunum. Hann skildi við málið uppi á skeri en hefur síðan talið sér trú um að best sé að láta eins og það hafi ekki gerst og skútan sé enn á floti. Viðræðurnar hófust á röngu stöðumati og ósannindum um eðli þeirra. Stöðumat Össurar á efni viðræðnanna er enn rangt og að Brexit auðveldi viðræður við staðfestir aðeins óraunsæið.