Sunnudagur 09. 10. 16
Eftir hádegið á Arctic Circle var á þinginu sjálfu meðal annars rætt um siglingar í Norður-Íshafi og brugðið upp korti af höfnum við heimskautsbauginn á því sást hve risastór svæði eru án hafna og raunar án byggðar til að þjóna þeim eða njóta þjónustu þeirra. Hópur sérfróðs fólks frá Alaska sem stofnað hefur félag til að greiða fyrir siglingum í Norður-Íshafi greindi frá fjölmörgum atriðum sem nauðsynlegt sé að samræma milli þjóða og staða til að reglufargan og opinberar kröfur verði í raun ekki meiri hindrun á leið skipstjórnarmanna en hafísinn.
Arctic Circle færir jafnt og þétt út kvíarnar og þar á meðal með því að halda minni fundi utan Reykjavíkur. Þeir hafa meðal annars verið í Nuuk og Singapúr. Nú er á döfinni að halda slíkan fund í Québec í Kanada á næstunni og kom fram í dag að þar yrði rætt um hvort læra mætti af regluverkinu sem gildir um siglingar eftir Saint Lawrence-fljóti og Saint Lawrence Seaway, það er siglingaleiðina frá Atlantshafi inn á vötnin miklu í Norður-Ameríku. Þar hafa Bandaríkjamenn og Kanadamenn komið sér saman um reglur og framkvæmd þeirra svo að skipstjórnarmenn eru alltaf í sama reglukerfi hvort sem þeir sigla skipum sínum um kanadískan eða bandarískan hluta leiðarinnar.
Þetta dæmi er nefnt hér til að sýna að fundirnir á Arctic Circle snúast um raunhæf úrlausnarefni og flest þeirra eru þess eðlis að um þau þarf að semja milli nokkurra ríkja.
Á upphafsdegi Arctic Circle kynnti Dmitríj Kolbíjkin, landstjóri í sjálfstjórnarhéraðinu Jamal-Nenets, efnahagsmál þessa rússneska heimskautahéraðs við Kara-haf. Tölurnar sem hann nefndi um gas- og olíuframleiðslu í héraðinu sýna að það er sannkölluð gullkista Rússlands og boðaði hann mikla aukningu gasvinnslu og áform um að flytja LNG-gas með skipum til Asíu.
Í sumar fékkst fjármagn frá rússneskum og kínverskum bönkum til að ráðast í verkefni sem kallað er Jamal LNG sem snýst um vinnslu á jarðgasi, kælingu á því í fljótandi form og flutningi í tankskipum til Asíu. Telur landstjórinn að vinna megi 16,5 milljón tonn af LNG-gasi á ári úr lindum sem talið er að geymi 926 milljarða rúmmetra af gasi. Vegna vinnslunnar verður gerð ný höfn fyrir risaskip og lagður nýr flugvöllur.
Það er ekki aðeins loftslagið sem gerir kleift að stórauka nýtingu auðlinda á norðurslóðum, tækniframfarir á öllum sviðum gerir slíkt auðveldara en nokkru sinni fyrr.