3.10.2016 18:15

Mánudagur 03. 10. 16

Theresa May, forsætisráðherra Breta, hóf flokksþing íhaldsmanna í Birmingham í gær með skorinorðri ræðu um úrsögn Breta úr ESB. Á sinni vakt yrði ekki vikist undan að framkvæma vilja þjóðarinnar í því efni. Þjóðin hefði milliliðalaust falið ríkisstjórninni að koma sér úr ESB og það yrði gert. Það yrði hvorki litið til EES-samningsins né tvíhliða samninga Sviss og ESB sem fyrirmynda heldur yrði fundin lausn sem félli að hagsmunum Breta og þeim ásetningi þeirra að láta að nýju að sér kveða á eigin forsendum í viðskiptum og fjármálum um heim allan. Bretland yrði að nýju fullvalda og sjálfstætt ríki.

Ræðan tók af öll tvímæli og þarna talaði forsætisráðherra sem baðst ekki afsökunar á einu eða neinu heldur sótti fram fyrir þjóð sína af festu og áræði. Af öllu því sem sagt hefur verið um fyrirhugaða samninga Breta við ESB ber íslenskum stjórnvöldum sérstaklega að fylgjast með hvort til verður nýr samstarfsgrundvöllur milli ESB og Evrópuríkis utan ESB sem þurrkar út vankantana sem menn sjá á EES-samningnum annars vegar og svissneska fyrirkomulaginu hins vegar. Gerist það er líklegt að ESB vilji EFTA-ríkin utan og innan EES inn í slíkt samstarf.

Ég hef bent á að lögfræðilega geti Bretar vísað til fordæmis í EES-samningnum um heimild EFTA-ríkis til að setja hömlur við frjálsri för fólks en leyfi til að setja slíkar hömlur er þungamiðjan í málflutningi úrsagnarsinna í Bretlandi, þeir vilja ná stjórn á komu aðkomufólks til landsins, það fá þeir með því að setja skorður við frjálsri för (Schengen-aðild skiptir þar engu máli þótt sá misskilningur hafi skotið rótum hér). Nú er ljóst að May ætlar ekki að beita sér fyrir neinni EES-lausn heldur þriðju leiðinni í nánum samskiptum Evrópuríkis við ESB.

Bretar ætla sér ekki neinar viðræður við ESB undir formerkjum EFTA og íhuga ekki neina leið sem tekur mið af hagsmunum EFTA-ríkjanna. Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði strax eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi að innan EFTA yrðu menn að skilgreina stöðu sína. Nú blasir við að það verði gert með það í huga að EFTA-ríkin verði áhorfendur sem ef til vill verði boðið að gerast aðilar að samningi Breta og ESB.

Utanríkisráðherra fól Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra að verða sérlegur fulltrúi Íslands gagnvart ESB og Bretum vegna úrsagnar Breta.