Sunnudagur 23. 10. 16
Viðtal mitt við Bryndísi Haraldsdóttur, formann bæjarráðs Mosfellsbæjar og 2. mann á lista Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, á ÍNN miðvikudaginn 19. október má nú sjá hér.
Á vefsíðunni Eyjunni birtist fimmtudaginn 20. október viðtal við Sighvat Björgvinsson, fyrrv. ráðherra og alþingismann, sem stóð að því árið 1999 sem formaður Alþýðuflokksins að mynda Samfylkinguna. Hana skyldi setja til höfuðs Sjálfstæðisflokknum. Hún er þó nú að hruni komin. Sighvatur segir meðal annars:
„Síðan gerist það, að þáverandi formaður Samfylkingarinnar [Ingibjörg Sólrún Gísladóttir] tekur ákvörðun um það að beina flokknum í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Í hrunstjórninni. Það er að segja, hverfur frá því upphaflega markmiði að reyna að gera Samfylkinguna að höfuðandstæðing Sjálfstæðisflokksins og kosti um stjórnarforystu á móti Sjálfstæðisflokknum.“
Í stuttu máli telur Sighvatur þetta upphafið að niðurlægingu Samfylkingarinnar.
Davíð Oddsson, fyrrverandi bogarstjóri, ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fjallar um stjórnmál líðandi stundar í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem birtist í blaðinu laugardaginn 22. október. Davíð víkur að kjöri Jóns Gnarrs sem borgarstjóra. Hann hafi persónulega svo sem ekki gert neitt annað en þiggja laun sín en seta hans í ráðhúsinu hafi verið „langdregin uppákoma“. Þá segir: „Þáverandi stjórnarandstaða í borginni taldi rétt að flissa með. Hún hefur ekki náð sér síðan.“
Þarna fella tveir fyrrverandi flokksformenn neikvæðan dóm yfir „samræðustjórnmálunum“ svonefndu. Þau nutu sín einmitt á þeim tíma sem þeir ræða og telja upphaf hnignunarskeiðs flokka sinna. Skýring þeirra er síst verri en aðrar. Sé hún rétt vaknar spurning um hvað verður um flokkana fjóra Pírata, Samfylkingu, VG og BF sem lúta forystu fólksins sem hittist í Litlu Lækjarbrekku við Bankastræti í Reykjavík í dag, sunnudaginn 23. október, til að stilla saman strengi sína vegna þess sem gerist eftir þingkosningarnar 29. október.
Vandinn vegna funda af þessu tagi er minnstur hjá Pírötum. Þar ræður lítil klíka för. Hún hefur búið þannig um hnúta að við henni verður ekki hróflað hvað sem á gengur. Flokkarnir þrír Samfylking, VG og BF eiga allt að heita lýðræðisflokkar með stjórnir og ráð til samráðs við ákvarðanir eins og um stjórnarmyndun. Ekkert fólk hefur verið kallað saman til að ræða slíkt í flokkunum. Þess vegna er látið eins og um samræður en ekki stjórnarmyndun sé að ræða. Formennirnir vilja útgönguleið. Allt bendir þó til að þeir hafi fest sig í neti.