15.10.2016 13:00

Laugardagur 15. 10. 16

Fyrir okkur sem höfum lengi stundað skrif um innlend og erlend málefni getur verið erfitt að átta sig á hvað ganga megi langt í frásögnum til að verða ekki sakaðir um haturs- eða kynþáttaskrif.

Um þessar mundir eru sagðar fréttir af því að hollenski stjórnmálamaðurinn Geert Wilders verði lögsóttur í heimalandi sínu fyrir hatursummæli á opinberum vettvangi. Hann flutti ræðu á opinberum stjórnmálafundi og spurði áheyrendur sína hvort þeir vildu fleiri eða færri Marokkóbúa til Hollands. Fólkið hrópaði: Færri! Færri! og Wilders svaraði: Ég kippi þessu í lag. (I will fix it, sagði í fréttum BBC). Fyrir þetta atvik vilja yfirvöld að hann verði dæmdur.

Í Fréttablaðinu birtist í dag frétt sem hefst á þessum orðum:

„Það er merkilegt að þeir vilji tengja við svona gamla kynþáttafordóma,“ segir Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði. Umræða hefur spunnist síðustu daga um sælgætisgerðina Kólus og umbúðir sem prýða kremlakkrís frá þeim.

Kólus framleiðir lakkrís undir heitinu Sambó en það er einnig rasískt hugtak í ensku. Hugtakið sem á við einstakling sem á hvíta og hörundslitaða forfeður hefur verið notað með niðrandi merkingu frá því um miðja 19. öld.

Kjartan Páll Kjartansson, framkvæmdarstjóri Kólus, segir ekkert rasískt vera við umbúðirnar og segir strákinn á umbúðunum vera litla svarta Sambó sem er indverskur drengur úr bókinni Sagan af litla svarta Sambó. Hann skilur ekki hvers vegna fólk er að gera mál úr þessu og segir þetta einfaldlega vera móðursýki. Bókin hefur verið harðlega gagnrýnd en hún er sögð einkennast af fordómum vegna staðlaðra hugmynda um svart fólk og þá sérstaklega teikningar bókarinnar.“

Í tímaritinu The Spectator mátti nýlega lesa grein um að í breskum háskólum fjölgaði nemendum sem teldu sér ekki annað fært en hefja baráttu fyrir mál- og skoðanafrelsi og beinist hún ekki síst gegn National Union of Students (NUS), landssamtökum breskra stúdentafélaga, sem greinarhöfundur segir að vilji kæfa allar umræður meðal námsmanna með kröfum um pólitískan rétttrúnað. Kallar hann andófsmennina Students for Sanity, baráttumenn fyrir heilbrigðri dómgreind. Núverandi forseti NUS hefur til dæmis neitað að fordæma hryðjuverkasamtökin Daesh (Ríki íslams) vegna þess að þar með kunni að verða til að ýta undir andúð á ísamlistum.