29.10.2016 15:30

Laugardagur 29. 10. 16

Eðlilegt er að fjölmiðlamenn reyni að fylla dálka sína af efni um kosningarnar á sjálfan kjördag. Þessar fréttir eru í raun innihaldslitlar: um veður og kjörsókn. Það gerist svo lítið raunverulega fréttnæmt hjá okkar fámennu þjóð að lítilfjörleg atriði verða útblásin í fásinni gráa veruleikans. Alltaf má þó reyna að finna einhvern frásagnarflöt.

Á Vísi segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, margt skrýtið við kosningarnar sem nú standa yfir og ómögulegt sé að setja fingur á um hvað kosningarnar snúast. Margir spennuþættir séu í kringum kosningarnar og þá séu þær að setja met í metum:

„Þar má nefna hrun fjórflokksins sem hefur haft ægivald í íslenskum stjórnmálum. Þá er metfjöldi flokka líklegur til að ná inn á landsvísu eða sjö talsins. Íslenskir jafnaðarmenn hafa aldrei legið lægri og þá gæti það gerst að þátttaka fari niður fyrir 80% sem er áhyggjuefni fyrir okkur.  Svo erum við með sérstakt stjórnmálaafl í Pírötum sem dregur að sér alþjóðlega athygli með hætti sem við höfum ekki séð áður.“

Þetta tal prófessora í stjórnmálafræði um „hrun fjórflokksins“ er tugga sem virðist hluti af rannsóknar- og kennsluefni þeirra. Í marga áratugi var unnt að tala um fjóra meginflokka í landinu sem aldrei voru allir samstiga en urðu stundum að setjast saman í ríkisstjórn, þó aldrei allir í einu. Tveir þessara gamalgrónu flokka hurfu úr sögunni um aldamótin, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag með tilkomu VG og Samfylkingar. Að setja þessa tvo flokka undir sama hatt og Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk er fráleitt. Í kosningunum í dag hrynur enginn fjórflokkur, hann finnst hvergi. 

Á undanförnum árum hafa oft heyrst kveinstafir yfir að orðspor Íslands og ímynd kunni að spillast vegna framgöngu íslenskra stjórnmálamanna. Einkennilegt er ef enginn ímyndarfræðingur fær áhyggjur af myndinni sem fólk annars staðar fær af frásögnunum af Birgittu og co. Hún sagði við Le Monde að hér þyrfti enga Marine Le Pen eða Donald Trump og gaf til kynna að hún fyllti það skarð. Hún ætlaði sér annaðhvort að vera forseti alþingis í eitt ár og kollvarpa stjórnarskránni og snúa sér síðan að ljóðagerð eða forsætisráðherra til að færa framkvæmdavaldið til alþingis. 

Halldóra Mogensen Pírati sagðist ætla að afnema fulltrúalýðræðið, það er gera alþingi valdalaust. Annar Pírati, Sunna Ævarsdóttir, sagðist ætla að verða dómsmálaráðherra enda hefði hún heimsótt fangelsin í kosningabaráttunni.