5.10.2016 17:15

Miðvikudagur 05. 10. 16

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt viðtal mitt á ÍNN við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, um Arctic Circle ráðstefnuna sem efnt er til í fjórða sinn í Hörpu nú um helgina. Þetta er mikið og merkilegt framtak sem rekja má til áhuga og dugnaðar Ólafs Ragnars.

Leiðinlegustu stjórnmálafréttir sem fluttar eru í nokkurri útvarpsstöð eru þær sem ríkisútvarpið flytur í hvert sinn sem dregur að þinglokum. Þær bera vott um að menn átta sig ekki á að stjórnarandstaðan getur sett þingstörf meira úr skorðum hér á landi en víða annars staðar vegna virðingarleysis gagnvart vilja meirihlutans sem er innbyggt í þingskapalögin. Talið um starfsáætlun þingsins sem getið er í hverjum fréttatíma í stað þess að fræða hlustendur um hvaða mál bíða afgreiðslu endurspeglar hve mikil áhersla er lögð á umgjörð þingstarfanna frekar en viðfangsefni þingmanna.

Árið 2009 var kjördagur ákveðinn 25. apríl en þing var að störfum til 17. apríl. Yrði sami háttur hafður á núna sæti þingið að störfum til 22. október en í dag er 5. október. Er ekki ástæðulaust að láta eins og himinn og jörð farist þótt þing sé enn að störfum? Af hverju skapa menn ekki frið til að unnt sé að afgreiða brýnustu málin?

Árni Páll Árnason var í fremstu röð Samfylkingarmanna vorið 2009 þegar þeir lifðu í von um að geta knúið í gegn stjórnarskrárbreytingar með aðstoð framsóknarmanna og Jóhanna forsætisráðherra vildi alls ekki slíta þingi. Nú segist hann ætla að klaga til Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) að þing sitji og kosningar í nánd. Hann nái ekki að hafa samband við kjósendur sína.

Þetta er allt á sömu bókina lært þegar litið er til alþingis. Það er eitur í beinum of margra þingmanna að þurfa að afgreiða mál. Þeir vilja heldur tala um störf þingsins, fundarstjórn forseta og skort á starfsáætlun enda er það vísasti vegurinn til að komast í samband við kjósendur í gegnum ríkisútvarpið.