4.3.2006 21:54

Laugardagur, 04. 03. 06.

Flaug í morgun til Óslóar - átti að fara kl. 07.35 en fór ekki af stað fyrr en rúmlega 08.00 vegna seinkunar á flugi frá New York.

Um 10 stiga frost í Ósló - þegar ekið er inn í borgina eru skilti um að greiða gjald vegna nagla í dekkum. Hvers vegna skyldi slíkt gjald á bílaeigendur ekki hafa verið rætt á Íslandi? Hvað um svifrykið? Enginn ekur í gegnum Ósló, án þess að greiða veggjald - án tillits til nagladekkja en notkun þeirra hríðféll eftir tilkomum nagladekkja-gjaldsins.

Las í Morgunblaðinu, að greinarhöfundur kvartaði undan því, að ég hefði ekki verið nógu sýnilegur sem menntamálaráðherra. Þegar ég hafði lesið þetta, gat ég ekki tekið annað í greininni alvarlega. Erindið við lesendur blaðsins sýndist mér vera að kvarta undan því, að Þorgerðue Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefði ekki tjáð sig nóg um tónlistarskóla. Bréfritari virtist ekki hafa hugmynd um, að lögum samkvæmt er rekstur þessara skóla á vegum sveitarfélaga.

Deilurnar vegna tónlistarskólanna stafa af því, að undir forystu Stefáns Jóns Hafsteins, formanns menntaráðs Reykjavíkur, var hróflað við þeirri skipan, sem ríkt hefur um greiðslur til þeirra, án þess að fundin væri lausn á þeim vanda, sem við það skapaðist. Honum var í raun velt yfir á nemendur og kennara.