22.3.2006 9:54

Miðvikudagur, 22. 03. 06.

Evrópunefndin hélt 26. fund sinn í hádeginu.

Ég þarf ekki að segja lesendum síðu minnar frá því, hve hörð hríð hefur verið gerð að mér til að hætta að tala um Baugsmiðlana. Af þingmönnum og öðrum er umræða mín um ofurvald þeirra á fjölmiðlamarkaðinum færð yfir á Baugsmálið og ranglega sagt, að ég sé að ræða það, sem ég geri ekki.

Sigurður T. Magnússon, settur ríkissaksóknari, ákvað í dag að áfrýja sex ákæruliðum af átta, sem dæmt var um í héraðsdómi og lauk með sýknu.

Í tilefni af áfrýjuninni sá Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, ástæðu til að gefa út yfirlýsingu, þar sem sagði meðal annars:

„Varðandi þann hluta áfrýjunar málsins er lýtur að ársreikningum félagsins er athyglisvert með hvaða hætti samkennarar Sigurðar Tómasar Magnússonar og Jóns H. B. Snorrasonar, fyrrum saksóknara í Baugsmálinu, í Háskólanum í Reykjavík hafa lagt honum lið við að réttlæta ákvörðun um áfrýjun. Þeir vilja leysa úr einhverri fræðilegri óvissu varðandi lög um ársreikninga. Lög kveða skýrt á um að aðeins eigi að áfrýja opinberu máli ef meiri líkur en minni eru til þess að sakfellt verði. Efnislega hefur ekkert komið fram sem getur hnekkt afdráttarlausri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Sú óvissa sem samkennarar saksóknaranna þykjast sjá verður helst leyst af Alþingi og ætti sem slík aðeins að renna frekari stoðum undir sýknudóminn í Baugsmálinu. Kennararnir í Háskólanum í Reykjavík viðurkenna að þeir hafi ekki kynnt sér ákæruliðina í málinu og sögðu að þeim fyndist lagaumhverfi hvað þessa liði varðar afar óskýrt. Samt hvöttu þeir til áfrýjunar málsins og hinn sérstaki saksóknari hefur hlýtt því kalli.“

Þessi hugur Jóhannesar í Bónus í garð kennara við Háskólann í Reykjavík kemur þeim ekki á óvart, sem lásu blöð hans Fréttablaðið og DV í morgun. Þar voru hefbundnir dálka notaðir til að endurspegla hug eigandans.

Jóhann Hauksson, stjórnmálablaðamaður Fréttablaðsins, segir í dag í dálkinum Frá degi til dags:

„Menn skipuleggja fundi í Háskólanum í Reykjavík um mat á sönnunargögnum og munnlegum vitnisburði í sakamálum. Fá málsmetandi ráðgjafa Morgunblaðsins úr röðum endurskoðenda til að fjalla um mun á lánum. Fá hugsanlega norska saksóknarann Morten Eriksen, greinarhöfund í Morgunblaðinu, til að halda fyrirlestra á vegum Lögfræðingafélagsins um nauðsyn þess að slaka á kröfum verknaðarlýsingar í meintum brotum.

Nú bíða menn spenntir eftir því að Háskólinn í Reykjavík haldi málþing um þann lærdóm sem ákæruvaldið megi draga af þeirri útreið sem það hefur fengið í Baugsmálinu.“

Eiríkur Jónsson, stjörnublaðamaður DV, segir í Sandkorni DV í dag:

„Háskólinn í Reykjavík er duglegur við að halda fundi um niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur í Baugsmálinu. Í fyrradag var haldinn fundur undir yfirskriftinni „Hvenær eru lán lán?“ Nú á að halda annan fund á mánudag sem ber vinnuheitið „Hvenær eru ólán ólán?“ en þar verður rætt um mikilvægi munnlegs framburðar fyrir dómi a la Sullenberger. Það er sonur Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi prófessors í lögum við Háskólann í Reykjavík, sem undirbýr fundinn en arftaki Jóns Steinars í Háskólanum í Reykjavík er einmitt Sigurður Tómas Magnússon sem skipaður var sérstakur saksóknari í Baugsmálinu. Þá var Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans, eitt sinn í stjórn Baugs en sagði sig óvænt úr henni. Osfrv...“

Fyrir rúmri viku var Bandaríkjamaður fyrirlesari í Háskóla Íslands og þá krafðist Elías Davíðsson þess, að maðurinn yrði handtekinn vegna skoðana sinna. Þessi gagnrýni Jóhannesar og blaðamanna á blöðum hans er í anda Elíasar: Við skulum þagga niður í þeim, sem segja annað innan veggja háskóla en við viljum.

Þess er krafist fyrir hæstarétti, að ráðherra sé bannað að ræða um Baugsmiðlana, án þess að krafan náði fram að ganga. Þegar fræðimenn „leyfa“ sér að ræða og gagnrýna sýknu héraðsdóms í Baugsmálinu er ráðist að málfrelsi innan háskóla.