20.3.2006 22:46

Mánudagur, 20. 03. 06.

Var klukkan 17.00 á fundi hjá Félagi stjórnmálafræðingja í Öskju með Magneu Marínósdóttur stjórnmálafræðingi og Jóni Hákoni Magnússyni, formanni Samtaka um vestræna samvinnu, þar sem við fluttum ræður um nýja stöðu í varnarmálum og svöruðum spurningum fundarmanna.

Það er að skýrast í stöðunni, að um tvíþætt viðfangsefni er að ræða, annars vegar lausn á atvinnumálum á Suðurnesjum vegna uppsagna hjá varnarliðinu og hins vegar sjálfar varnir landsins. Á fundi stjórnmálafræðinganna ræddum við síðari þátt málsins.

Þegar um það er hugsað, sjá menn, að einkennilegt er að álykta á þann veg, að innan íslenska stjórnkerfisins sé fyrir hendi sérþekking á varnarmálum eða íslenskir stjórnmálamenn fái ráð um þau efni. Hvers vegna skyldu þeir fá það og frá hverjum? Það hefur verið haldið fast í þá stefnu og starfshætti, að íslenska ríkið sinni ekki sjálft varnarmálum eða herfræðilegu mati, enda sé það í höndum annarra, að sumra mati líklega vegna þess að annað sé fyrir neðan virðingu Íslendinga!

Nú á dögum eru ekki margir enn á lífi, sem fylgdust náið með gerð varnarsamningsins veturinn 1950 til 1951 og geta lesið hann með vísan til afstöðu þeirra, sem að honum stóðu hér á landi. Heimildarmaður um þetta er þó enn meðal okkar og hann sagði mér, að markmið samningsins hefði verið að búa þannig um hnúta, að hann tryggði, innan vébanda Norður-Atlantshafssáttmálans, að ávallt yrðu gerðar nauðsynlegar ráðstafnir til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafssvæðinu og þar með varnir Íslands. Þetta yrði gert með sameiginlegu framlagi Íslendinga og Bandaríkjamanna með þeim viðbúnaði, sem þyrfti hverju sinni. Honum þótti þess vegna skrýtið, að látið væri að því liggja, að það ætti að leiða til riftunar á samningnum, þótt Bandaríkjastjórn hættu að láta fjórar orrustuþotur eiga hér heimavöll.