10.3.2006 19:45

Föstudagur, 10. 03. 06.

Var í Lögregluskóla ríkisins klukkan 14.30 og flutti erindi fyrir þá, sem eru þar í stjórnendanámi. Ræddi ég um nýskipan lögreglumála og aðferðafræðina við að ná þeim áfanga, að semja frumvarp um málið og leggja það fyrir alþingi. Að loknu erindinu svaraði ég fyrirspurnum og kvaddi nemendur klukkan 16.00.

Ég skil ekki, hvers vegna stjórnarandstæðingar kjósa að gera þetta veður út af frumvarpi til vatnalaga - nema þeir vilji taka upp hanskann fyrir þá, sem urðu undir í deilunum um eignarrétt á vatni fyrir um það bil áttatíu árum. Vissulega var hart deilt um málið á þeim tíma, en ætla hefði mátt, að reynslan síðan væri ekki á þann veg, að stofna til þeirra deilna, sem nú standa á þingi.

Deilurnar á þingi snúast þó ekki einungis um þetta frumvarp heldur og ekki síður um þá ákvörðun forseta alþingis, að breyta skuli starfsáætlun þingsins og fjölga fundum til að stjórnarandstaðan fái tækifæri til að lýsa skoðunum sínum á frumvarpinu í löngum ræðum.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður frjálslyndra, reyndi í Kastljósi að afsaka nafnlausu hugleysingjanna á malefni.com með þeim rökum, að ég héldi úti þessari síðu. Í umræðum um sérsveit lögreglunnar á þingi í mars 2004 sagði sami Sigurjón meðal annars:

„Menn hafa reynt að geta í eyðurnar og sumir hafa látið sér detta í hug að verið sé að láta gamlan bernskudraum rætast með því að efla sérsveitina. Ekki ætla ég að fullyrða að svo sé, en það er eins og mig minni að hæstv. ráðherra hafi fengið fleiri hugmyndir sem ég vonast til að verði ekki framkvæmdar með sama hraði, svo sem stofnun íslensks hers, endurreisn klausturs í Viðey og að senda varðskip til Júgóslavíu á meðan stríð geisaði.“