19.3.2006 19:02

Sunnudagur, 19. 03. 06.

Í fréttum var sagt frá því, að Samfylkingin ætlaði að skipa þverpólitískan (?) hóp undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, til að ræða um varnarmálin. Mér finnst skrýtið, að því skuli ekki hnýtt við þessa frétt, að Samfylkingin hafi ekki komist að einni niðurstöðu um það, hvernig að vörnum landsins skuli staðið - flokksþing Samfylkingarinnar skilaði auðu um þetta mál. Ætla má, að það sé talinn bónus fyrir Samfylkinguna við skipun þessa hóps að breiða yfir ágreining í eigin röðum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sveiflast í afstöðu sinni á þeim dögum, sem liðnir eru frá 15. mars. Á þingi 16. mars flutti Ingibjörg Sólrún ræðu um varnarmál, án þess að minnast á NATO eða varnarsamninginn. Daginn eftir var hún þeirrar skoðunar, að ræða ætti framtíð varnarmálanna með vísan til varnarsáttálans. Í dag gagnrýnir hún forsætisráðherra og utanríkisráðherra fyrir að halda sér um of við varnarsamninginn.

Þegar Ingibjörg Sólrún flutti ræðu sína á þingi, var haft á orði, að líklega hefði Jón Baldvin komið að gerð hennar - hann hefur síðar lýst þeirri skoðun sinni, að hann vilji segja upp varnarsamningnum. Ingibjörg Sólrún hefur núna sveiflast til þeirrar áttar.

Fór kl. 20. 00 á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Salnum, þar var leikið á glerhörpu í fyrsta sinn á Íslandi.