16.3.2006 20:52

Fimmtudagur, 16. 03. 06.

Þing hófst kl. 10.30 og fór þá Sigurjón Þórðarson, þingmaður frjálslyndra, í ræðustól og krafðist þess af mér, að ég ræddi við hann um Baugsmálið, af því að ég hefði rætt það hér á síðunni og bæri að því er mér skildist ábyrgð á niðurstöðu héraðsdóms frá því í gær. Þá vék Sigurjón á ómaklegan hátt að fjarstöddu fólki. Ég svaraði og sagði ræðu Sigurjóns fyrir neðan virðingu alþingis, ég hefði ekki rætt Baugsmálið á vefsíðu minni og mundi ekki gera það á alþingi. Mörður Árnason var síðan með sinn venjulega snúð en ég undraðist orð Guðjóns Arnars Kristjánssonar, sem sakaði mig um skrif um Baugsmálið, án þess að hafa nokkuð til síns máls.

Þá gaf Geir H. Haarde utanríkisráðherra skýrslu um stöðu varnarmálanna gagnvart Bandaríkjamönnum eftir atburði gærdagsins og flutti ég ræðu í þeim umræðum, sem ég set hér inn á síðuna, þegar hún kemur úr þingritun, en ég hafði ekki skrifað hana.

Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, einkenndist af þeim þótta, sem hún hefur tileinkað sér, án þess að í raun sé verið að segja neitt, sem máli skiptir. Hún minntist hvorki á aðild Íslands að NATO né varnarsamninginn við Bandaríkin. Össur Skarphéðinsson flutti einnig ræðu fyrir hönd Samfylkingarinnar og hreykti sér af stefnu flokksins í utanríkis- og varnarmálum. Geir H. Haarde vakti hins vegar athygli á því, að þessi stefna lægi alls ekki á lausu, því að flokksþing Samfylkingarinnar hefði orðið sammála um að vera ósammála um þessi mál!

Ögmundur Jónasson talaði tvisvar fyrir vinstri/græna og mátti skilja hann á þann veg, að í stórum dráttum væri hann sammála mér um viðbúnað á vegum lögreglu og landhelgisgæslu - hið eina, sem hann óttaðist væri, að ég ætlaði að einkavæða eða hlutfafélagavæða gæsluna.

Um kvöldið var ég í Kastljósi og ræddi við Kristján Kristjánsson um varnamálin.