11.3.2006 19:46

Laugardagur, 11. 03. 06.

Í öllum fréttatímum í kvöld var sagt frá ritdeilu Morgunblaðsins og Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í framhaldi af vangaveltum ráðherrans á vefsíðu sinni um, að Íslendingar ættu að íhuga aðild að evruandi, án þess að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er lýst undrun yfir því, að ráðherrann skuli vera þessarar skoðunar, þar sem hún hljóti að byggjast á vanþekkingu. Ráðherrann svarar hins vegar fullum hálsi á vefsíðu sinni og telur afstöðu blaðsins helst byggjast á því, að hún hafi neitað að hitta ritstjóra blaðsins reglulega á einkafundum auk þess sem honum hætti til að tala niður til kvenna.

Sama dag og þessar fréttir um heitar ritdeilur birtast er enn sagt frá áköfum deilum á alþingi vegna frumvarps iðnaðarráðherra um ný vatnalög - lauk þeim síðdegis, þegar Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar þingsins, boðaði til fundar í nefndinni til að ræða frumvarpið. Var þetta skynsamlegt skref hjá Birki og hafa stjórnarandstæðingar vafalaust verið honum þakklátir, því að þeir voru komnir í öngstræti, sem lýsti sér meðal annars að því, að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, stjakaði við Sigurði Kára Kristjánssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í þingsalnum.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun, að án aðildar að Evrópusambandinu sé ekki unnt að verða hluti að evrulandi, þótt öll ESB-ríkin væru ekki í evrulönd. Ólík lögfræðileg sjónarmið hafa birst, eftir að Valgerður Sverrisdóttir kynnti hugmynd sína - í Háskóla Íslands telja menn aðild að evrulandi án ESB-aðildar lögfræðilega í lagi en ekki í Háskólanum í Reykjavík. Skyldi evruaðild rúmast innan stjórnarskrárinnar? Ég man ekki eftir að hafa heyrt álit lögfræðinga á því. Þyrfti ekki að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um evruaðild? Sérfræðingar innan seðlabankans telja evruaðild án ESB-aðildar ekki fýsilega - við öxluðum evruskyldur án þess að njóta öryggisnetsins, ef eitthvað færi úrskeiðis