8.3.2006 21:25

Miðvikudagur, 08. 03. 06.

Var klukkan 08.10 í qi gong eins og venjulega, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Nú var óvenjulega vel sótt og klukkan 08.30 lauk ég æfingunum og við fórum öll í matsal Þjóðleikhússins, þar sem beið okkur glæsileg afmælisterta og ég afhenti meistara Gunnari Eyjólfssyni áttræðis afmælisgjöf frá hópnum með áletruninni: Líf í orku, lifðu heill! Qi gong félagar.

Klukkan 13.30 kom Ragnheiður Bragadóttir, lagaprófessor við Háskóla Íslands, til fundar við mig og gengum við frá frumvarpi, sem hún hefur samið um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Nú hefur verið skýrt frá því, að fullyrðingar fulltrúa Bauhaus um lóðamál í Garðabæ og hlutdeild Ásdísar Höllu Bragadóttur séu hreinn uppspuni - en í miðopnu Morgunblaðsins er t. d. fyrirsögn á viðtali við þennan Bauhaus-mann þess efnis, að BYKO ráði hér lögum og lofum og sé að leggja stein í götu Bauhaus.

Í borgarstjórn í gær var varað við því, að menn létu ekki snobb fyrir útlendingum villa sér sýn við ákvarðanir vegna tilboðs frá Yoko Ono um það, sem hún kallar friðarsúlu. Að manni hvarflar, að einhvers konar útlendingasnobb ráði að nokkru afstöðu til Bauhaus - hvers vegna þarf þetta fyrirtæki sérmeðferð við úthlutun lóðar? Fulltrúi Bauhaus talaði á sérkennilegan hátt niður til Tyrkja og Króata en bætti þó hlut þeirra með því að segja Íslendinga öllu verri - allt út af því, að hann fékk ekki lóð í Urriðaholti á þeim kjörum, sem hann vildi.

Enn eru erlendir sérfræðingar að benda á veikleika í íslenska efnahagskerfinu - nú einkum bankakerfinu. Og við erum hvött til að rétta stólbökin og spenna beltin - enginn viti þó, hvort lendingin verði hörð eða mjúk, en við séum þó örugglega byrjuð að lækka flugið.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir best að ganga varlega að krásunum og ekki láta eins gráðug börn við tertudiska í afmælisboði. Í marga mánuði hefur verið býsnast yfir að krónan hafi hækkað en nú er býsnast yfir, að hún hafi lækkað. Hvað skyldi hún þurfa að lækka mikið til að Marel sjái sér hag í því að halda áfram að vaxa hér á landi en ekki í Slóvakíu?