14.3.2006 21:46

Þriðjudagur, 14. 03. 06.

Í dag var sagt frá því á alþingi, að nafn Ungmennafélags Íslands hefði verið misnotað af þeim, sem halda uppi málþófi vegna vatnalagafrumvarpsins í þingsölunum.

Á vefsíðunni www.ruv.is birtist þessi stórfrétt:

„Þingmaður segir vatnalagadeilu pólitíska
Lúðvík Bergvinsson alþingismaður Samfylkingar, segir að deilan um vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar snúist ekki nema að hluta um lagatúlkun, hún sé pólitísks eðlis. Hann undrast hve ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að frumvarpið fáist afgreitt og telur að skýringin geti að hluta til verið lagaóvissa tengd vatnaflutningum á Austurlandi í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.“

Það er gott, að þetta er upplýst. Hefði þó ekki verið meiri frétt, að Lúðvik Bergvinsson sé eini lögfræðingurinn, sem telji frumvarpið leiða til efnisbreytinga á eignarrétti á vatni? Um Kárahnjúkavirkjun gilda sérlög og vatnalögin breyta þeim ekki.

Ég sé að Bergljót Davíðsdóttir, blaðamaður á DV, les þessa síðu mína og hefur þess vegna líklega rekist á gagnrýni mína á leiðaraskrif hennar um Evrópuumræðurnar. Nú gerir hún harða hríð að mér í leiðara DV vegna sorglegra banaslysa í umferðinni. Hún ræðir fjölgun sérsveitarmanna í þessu sambandi og segir: „Það virðist með öðrum orðum vera mun ríkari þörf á að rannsaka brot á borð við landráð, brot gegn stjórnskipun ríkisins og hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi en að bjarga mannslífum í umferðinni.“ Hér sýnist mér Bergljót frekar vera að ræða um fyrirhugaða greiningardeild en sérsveitina, henni er ekki ætlað að stunda rannsóknir.

Leiðara sínum lýkur Bergljót á þessum orðum:

„Mannfall á vígvelli götunnar er eftir sem áður staðreynd, ár eftir ár. En svo mikið er víst að sérsveitir Björns Bjarnasonar munu ekki storma út á þjóðvegi með hraðamælingartæki að vopni. Áfram munum við sjá á eftir fleiri unglingum en við þyrftum falla ár hvert í valinn.“

Ég dreg þá ályktun af þessu, að Bergljót hafi ekki hina minnstu hugmynd um verkaskiptingu innan lögreglunnar og hvað breytt skipulag á sérsveitinni hefur haft í för með sér, þótt sérsveitin hafi ekki það verkefni að sinna umferðareftirliti.